Örvitinn

Aðgerð

Aðgerð
Kolla fékk rör í eyrun í gærmorgun. Ég fór með hana til læknis rétt rúmlega átta um morgunin. Þar lékum við okkur og litum í bækur í svona hálftíma þar til svæfingarlæknirinn kom fram og sagði að það væri komið að Kollu.
Ég hélt á henni inn og sat með hana í fanginu á meðan svæfingarlæknirinn hélt grímunni að andlitinu á henni. Kolla var frekar róleg, en eftir svona eina mínútu fór hún aðeins að reyna að losna undan grímunni. Hún barðist nú ekkert mjög mikið um, þannig að væntanlega hefur gasið strax verið farið að hafa einhver áhrif. Um það bil einni mínútu síðar var hún steinsofandi í fanginu á mér.
Ég fór svo fram á biðstofu og beið á meðan rörin voru sett í eyrun á henni. Það tók ekki nema svona fimm mínútur. Ég varð var við umgang á ganginum þannig að ég stóð upp og fór og beið við dyrnar. Skömmu síðar kom hjúkrunarkona og sagði mér að ég mætti koma inn til hennar. Kolla var þá sofandi í hvíldarherberginu, lá á hlið vafin í blátt teppi.
Hún svaf mjög fast í svona tíu til fimmtán mínútur, en vaknaði þá upp frekar snögglega. Ég tók hana í fangið og hún kúrði á öxlinni á mér í nokkurn tíma. Hún vildi ekki drekka vatn sem hjúkkan gaf henni en virtist samt líða ágætlega.
Hálftíma eftir aðgerðina var okkur sagt að við mættum fara. Ég spurði hjúkrunarkonuna eitthvað út í hvernig við ættum að umgangast eyrun á Kollu og fékk ábendingar um að það væri í lagi að baða hana svo lengi sem hausinn færi ekki á kaf.
Hitti svo lækninn aðeins á ganginum og hann sagði mér eitthvað örlítið og ómerkilegt sem fór eiginlega fyrir ofan garð og neðan hjá mér.
Frammi á biðstofu gekk ég frá reikningum og bókaði tíma hjá lækninum með Kollu á öxlinni allan tíman. Hún var frekar slöpp og það lak ansi mikið úr nefinu á henni. Ég fór með hana inn á klósett til að þurrka af nefinu og þá ældi hún aðeins á gólfið og svo í klóstið. Hún virtist nú eitthvað braggast við þetta og við vorum komin út skömmu síðar. Komum við í bakaríi og keyptum smotterí að borða og drykki handa Kollu.

dagbók