Örvitinn

Af örvitanum

Af örvitanum
Í fyrradag fór ég í World Class, eins og ég geri reyndar á hverjum virkum degi. Eftir ágætis átök skellti ég mér í sturtu og þreif mig hátt og lágt, aðallega lágt.
Þegar svo kom að því að opna skápinn minn lenti ég í smá bobba. Ég læsi nefnilega alltaf skápnum mínum, geymi töskuna uppi á skápunum en hef fötin og ferðatölvuna inni í læstum skáp. Hvað um það, í gær ætlaði ég að opna en þá passaði lykillinn ekki í lásinn. Eða réttara sagt, lásinn passaði ekki á lykilinn. Ég skildi ekkert í þessu og fór að velta því fyrir mér hvort ég hefði hugsanlega læst vitlausum lás, hversu undarlega sem það hljómar. Skellti mér í stuttbuxur og bol og rölti fram í afgreiðslu og lýsti vandamálinu. Stelpurnar í afgreiðslunni komu ekki af fjöllum eins og ég hafði átt von á, heldur létu mig umsvifalaust fá lykil. Sögðu mér svo að ég hafði læst vitlausum skáp!!! Þau höfðu þurft að klippa lásinn minn af honum og höfðu læst mínum skáp með öðrum lás í leiðinni (væntanlega séð að ferðatölvan var í skápnum)

Þetta var semsagt örvitaskapur vikunnar, ef ekki ársins. Einhver hefur semsagt lent í því að koma að skápnum sínum þar sem örvitinn ég var búinn að læsa honum og svitnaði svo grandlaus inni í sal, glápandi á stelpurnar.

Í dag fór ég svo á fund hjá SAMT í annað skipti. Þetta var fjörlegt eins og síðast, síðasti klukkutíminn þó full "fjör"legur þar sem rökrætt var um rannsóknir í dularsálarfræði og hvort eitthvað mark væri hægt að taka á þeim.

Mér finnst nú meira gaman að gera grín að trúmönnum en að rökræða svona hluti, en þetta var ágæt skemmtun þrátt fyrir allt.

Vefsíða dagsins er svo heimasíða James Randi

dagbók