Örvitinn

hádegisgestir

Ég fór í hádegismat með stelpunum mínum í dag. Labbaði á móti þeim klukkan 12:30 og við gengum niður í bæ. Komum við á hagstofunni og skráðum Ingu Maríu í þjóðskrá, svo hún hætti nú að heita Stúlka Matthíasdóttir. Auðvitað nýtti ég tækifærið og skráði hana úr þjóðkirkjunni. Ég, Kolla og Inga María eru því utan trúfélaga.

Við röltum svo í bæinn í blíðunni og fengum okkur að borða á Apótekinu. Það var ekki séns að fá borð úti á Austurvelli, þannig að við settumst bara inn á Apótekið. Ágætis matur, ég fékk mér kjúklingasalat, Gyða fékk sér grillað lamb á teini og Áróra fékk sér graflax. Graflaxinn var þó ekkert sérstakur, eiginlega of kryddaður, þannig að Áróra var ekkert mjög södd eftir þessa máltíð. Gyðu fannst sinn skammtur ekkert sérlega stór en ég var sáttur við minn, enda var ég duglegastur við að borða brauð með hummus á meðan við biðum eftir matnum. Kolla fékk samloku með skinku og osti og franskar í meðlæti og borðaði ágætlega af því.
Ég skyldi svo við stelpurnar á austurvelli, þar sem Kolla og Áróra voru að fara að leika sér í hoppukastala. Vonandi hoppar enginn ofan á Kollu.
Inga María horfði lengi á eftir mér þegar ég gekk í burtu. Hvað skyldi hún hafa verið að spá?

dagbók