Örvitinn

morgunstund

Það var ekkert rosalega gaman að skipta um sáraumbúðir í gærkvöldi. Grisjan og sokkurinn voru föst í sárinu og ég þurfti að rífa það hægt og rólega af. Setti nýjar umbúðir á í gærkvöldi og skipti svo núna í morgun. Það þarf greinilega að skipta um umbúðir tvisvar á sólahring.

Inga María svaf illa í nótt og Gyða þar af leiðandi líka. Ég fór á fætur 6:30 og tók Ingu Maríu með mér niður svo Gyða gæti sofið áfram.

Okkur tókst að dunda okkur saman í klukkutíma, en svo varð hún nú þreytt á föður sínum, sérstaklega eftir að hún datt og meiddi sig. Þá vantaði nú mömmu til að kúra í fanginu hjá. Það er ekkert eins og "the real thing"

Jæja, Gyða og Kolla eru komnar á fætur. Þá fer ég bráðum að skjótast í vinnuna.

Kolla var hress og kát í morgun, pissaði meðal annars í koppinn sinn. Ég skutlaði henni svo á róló rétt rúmlega níu. Það var bara ein stelpa mætt á róló og Kolla var eitthvað feimin fyrst, en svo fóru þær að leika sér í sandkassanum. Ég held að Kolla sé mjög ánægð á róló. A.m.k. sá ég ekki betur þar sem ég stóð álengdar og njósnaði :)

dagbók