Örvitinn

ættarmót

Í rauninni er engin ástæða fyrir þessari dagbókarfærlsu. Hvað um það, ég ætla að stunda það að skrifa um allt og ekkert í þessa dagbók. Ég held að það geti orðið áhugavert að líta yfir þessi skrif eftir nokkur ár. Sjá hvað á daga mína hefur drifið.

Þessa helgi er ættarmót hjá ætt föðurfjölskyldu minni. Afkomendur ömmu hans og afa í móðurætt eru að hittast á Húsavík. Ég mætti á síðasta ættarmót fyrir að minnsta kosti tíu árum. Flaug þá norður á laugardegi. Man eftir því að ég var með myndarlegt glóðarauga eftir að hafa verið sleginn í bænum kvöldið áður. Hafði þar verið að gera heiðarlega tilraun til að stöðva slagsmál en Einar Már var að glíma við einhvern náunga. Vini hans þótti afskiptasemi mín ekki viðeigandi og gaf mér því einn á lúðurinn.

Þegar ég mætti á ættarmótið sagði ég að ég hefði verið kýldur en mátti ekki segja ömmu heitinni það. Fólk hafði svo miklar áhyggjur af því að hún myndi hafa miklar áhyggjur!!! þannig að ég þurfti að segja henni að þetta hefði verið eitthvað slys.

Við komumst ekki norður núna. Þetta er full mikið ferðalag fyrir stutt stopp að okkar mati auk þess sem ég er á fullu í vinnunni. Ég framkallaði nokkrar myndir í gær sem Diddi tók með sér norður svo mamma geti stært sig af barnabörnunum.

Föstudaginn næsta fara stelpurnar mínar með tengdaforeldrum mínum og mági í sumarbústað á vestfjörðum og skilja mig eftir einan heima í viku. Enn og aftur kemst ég ekki sökum vinnu.

Ég stefni á að taka mér viku frí í sumar en það verður bara að ráðast hvort það tekst. Ég tek mér að minnsta kosti gott frí þegar leikurinn er komin út (og búinn að ganga í smá tíma).

dagbók