Örvitinn

Samsæriskenningar

Um þessar stundir er fjöldi manna á skerinu sannfærðir um að Davíð Oddsson sé maðurinn á bak við allt sem fer úrskeiðis.

Tveir atburðir síðustu daga hafa orðið til þess að fólk er að sturlast. Annars vegar lýsti Sigurður G. Guðjónsson því yfir í viðtali í morgunsjónvarpinu á Stöð2 að Davíð Oddsson stæði augljóslega á bak við samsærið gegn Norðurljósum.

Hins vegar var Þorfinni Ómarssyni framkvæmdastjóra Kvikmyndsjóðs vikið tímabundið úr starfi vegna rannsóknar á fjármálaóreiðu.

Vandamál gaspraranna eru hversu takmarkaðar samsæriskenningarnar eru.

Ef ég set upp samsærishattinn og skoða málin ofan í kjölinn er alveg ljóst að þetta teygir anga sína langt aftur. Eins og innherjar hafa bent á er augljóst að Davíð er að hefna sín á Þorfinni fyrir að hafa ekki styrkt Hrafn Gunnlaugsson til framleiðslu kvikmyndar eftir handriti Davíðs. Þetta sjá allir.

En til þess að losna við Þorfinn þurfti Davíð náttúrulega að fá mann í stól Menntamálaráðherra sem hann gæti treyst og það gilti náttúrulega ekki um Björn Bjarnason því hann er svo uhhh mikið menningarfrík og hefur svo oft skálað með Þorfinni.

Því var fyrsta verk Davíðs að bola Birni úr ráðherrastólnum með því að henda honum í borgarstjórastríðið. Davíð vissi auðvitað að það væri tapað stríð en hann þurfti að losna við Björn. Björn gafst upp, því hann vissi að maður segir ekki nei við Davíð. Svoleiðis gera menn bara ekki.

Þvínæst setti Davíð nýjan ráðherra í menntamálaráðuneytið sem engar forsendur hefur til að sitja í því sæti aðrar en að treysta sér til að reka Þorfinn. Þetta sjá allir.

Meira síðar, þetta verður sko alvöru samsæriskenning.

T.d. er alveg ljóst að Davíð Oddson stóð fyrir samdrætti síðustu ára með hruni gengis krónunnar einungis til þess að ná völdum yfir Norðurljósum. Þetta sjá allir.

pólitík