Örvitinn

fjölskyldustundir

Ég fór snemma heim úr vinnunni í gær, var búinn að vera 12 tíma kl. 19:30 og ákvað að skella mér heim þá. Var á leið á æfingu kl: 21:00 og náði því að eyða 45 mínútum með stelpunum (Áróra er ekki heima, er hjá pabba sínum í sumarfríi)

Það er voðalega notalegt að fá fjölskyldustundir þegar maður er lítið heima við. Við sátum saman í stofunni og lékum okkur og stelpurnar léku á alls oddi. Ég setti Kollu svo í rúmið og bjóst til ferðar.

Þegar ég var á leiðinni út sat Inga María á gólfinu við hlið mömmu sinnar. Hún horfði á eftir mér ganga niður stigann á jarðhæðina og þegar ég hvarf fyrir hornið fór hún að hágráta ... það þykir mér voðalega vænt um :) Ég fór náttúrulega upp aftur og knúsaði hana. Ég held þetta sé í fyrsta sinn sem hún er sár og svekkt þegar ég yfirgef hana enda er hún voðalegt mömmubarn.

Þegar Kolla var á hennar aldri var ég heima með henni í tvo mánuði og svo hálfan daginn í tvo mánuði í viðbót. Ég sakna þess tíma dáldið.

Jæja, þetta var væmna dagbókarfærsla dagsins (ársins?)

dagbók