Örvitinn

siðmennt trúfélag

Synjunin frá Dóms og Kirkjumálaráðuneyti (af hverju í andskotanum höfum við Kirkjumálaráðuneyti) við umsókn Siðmenntar um skráningu sem trúfélag kom i hús í fyrradag. Á SAMT póstlistanum eru menn að ræða þennan úrskurð fram og til baka. Ekki þykir rökstuðningurinn merkilegur, ég veit ekki hverju fólk átti von á.

Stebbi mágur var búinn að segja mér að þetta myndi fara svona, hafði það eftir einhverjum stórkalli í einhverju ráðuneyti (alveg magnað hvað ég hef ónákvæmt minni). Við höfum rætt þessi mál af og til undanfarin ár, það er hvort hægt væri að stofna trúfélag um eitthvað málefni og drekka svo fyrir sóknargjöldin, halda veglega árshátíð. Niðurstaða Stebba var semsagt sú að það væri ekki hægt miðað við núverandi lög. Úrskurður í máli Siðmenntar staðfestir það.

Nú vona ég bara að siðmenntarfólkið taki þessu af stillingu. Ég held að það verði ekki jákvætt fyrir siðmennt ef talsmenn þess koma fram af of miklum ákafa. Mín skoðun hefur reyndar alltaf verið sú að ef einhver hefði átt að sækja um þetta hefði það átt að vera SAMT þar sem sá hópur má betur við illu umtali heldur en Siðmennt.

efahyggja