Örvitinn

er ég þjófur?

Svo virðist sem ég sé glæpamaður. Eins og allir sannir glæpamenn get ég náttúrulega kennt áfenginu um, sér í lagi þar sem þýfið var áfengi í þessu tilviki.

Þegar Særún átti afmæli fórum við í teiti hjá Katrínu. Ég tók með poka af áfengi og svo var drukkið og sprellað. Þegar við vorum að fara fór ég inn í eldhús að sækja áfengi og greip þá meðal annars með mér vodkaflöskuna mína og var heldur svekktur yfir því að einhverjir hefðu verið að drekka af henni.

Nú kemur í ljós að Katrín saknar svona vodkaflösku og þá þykir mér líklegast að ég hafi ekkert tekið mína flösku með í teitið og hún standi óopnuð heima hjá Davíð og Særúnu.

Svona gerast hlutirnir í undirheimum Reykjavíkur.

Það sem er svo eiginlega kjánalegast í þessu öllu saman er að þegar við fórum í bæinn kom ég við í CCP og geymdi flöskuna í skáp þar. Henni var svo stolið um nóttina. Ég fann hana á mánudeginum á skrifstofu á annarri hæðinni. Þjófarnir voru sem betur fer orðnir syfjaðir og drukku ekki mikið af henni, en ég blótaði þeim mikið.

Uppfært 10:46
Davíð var að hringja í mig og staðfesta að flaskan mín er heima hjá honum. Hann hafði eitthvað gleymt að láta mig vita af því strákurinn :-) Var greinilega sáttur við að eiga fulla flösku af úrvals smirnoff vodka í skápnum.

Uppfært 16:30
Hringdi í Eika og Oddný. Katrín er farin til Danmerku. Oddný sá póstinn frá henni ekki fyrr en í morgun. Þetta er allt hið versta mál.

Ég er með alveg bullandi samviskubit :-(

Uppfært 25. ágúst 17:00
Ég skil ekki alveg hvað Davíð var að spá í þessu máli. Ef hann hefði látið mig vita dagana eftir þetta skrall að flaskan mín væri ennþá heima hjá honum og að ég hefði þar með verið að taka flösku sem ég átti ekkert í (en hann fattaði það um leið og hann sá að flaskan mín var heima hjá honum) þá hefði ég að sjálfsögðu komið flöskunni minni til hennar Katrínar. Ég er ekki 16 ára, ég stel ekki áfengi viljandi úr partíum.

En í staðinn þótti honum þetta bara fyndið og ákvað að eigna sér flöskuna mína á þeim forsendum að ég hefði tekið svo mikinn bjór frá honum kvöldið áður í partíið hennar Katrínar (sem er alveg satt, ég tók helling... en hann hafði nú tækifæri til að stoppa mig strákurinn enda ráðfærði ég mig við hann og bjórinn vara handa okkur öllum :-) ).

Núna þarf ég að ná sambandi við Katrínu og borga henni flöskuna.

dagbók