Örvitinn

frelsið

Var að lesa birgir.com (30.08.2002)

Þar fjallar hann um lögleiðingu fíkniefna og ég er sammála honum í einu og öllu. En það er eitt sem fer í taugarnar á mér.

Þetta þýðir að sjálfsögðu að sú skoðun mín að lögleiða skuli öll fíkniefni hefur ekkert með skoðanir frjálshyggjumógúla að gera þótt þeir séu þar sammála mér. Þeir vilja frelsi til að græða, ég vil draga úr hinni samfélagslegu skaðsemi sem fylgir því að þetta drasl er bannað.(feitletrun mín)

Hvað er þetta með sósíalista? Nú er ég frjálshyggjumaður, þó ég hljóti að teljast frekar hógvær miðað við niðurstöðu pólitíska prófsins sem Birgir vísar á. En er þar með sagt að ég sé fylgjandi lögleiðingu fíkniefna á þeim forsendum að ég vilji græða á því?

Ég væri ekki að minnast á þetta nema vegna þess að ég er sífellt að rekast á þetta stef. Félagshyggjufólk sem telur að það sé göfugra og betra en aðrir vegna þess að það vilji hlutina á sömu öðrum forsendum. Jafnvel þó það vilji sömu hluti og allir aðrir.

Svo það sé á hreinu, þá vill ég lögleiða fíkniefni af nákvæmlega sömu ástæðu og Birgir. Ég tel að fleiri vandamál fylgi því að fíkniefni eru ólögleg heldur en fíkniefnunum sjálfum. Ég er viss um að fullt af fíklum myndu ekki vera í sama skítnum og þeir eru núna ef efnið sem þeir eru háðir væri ekki undirheimavara.

En eflaust beiti ég sömu aðferð sjálfur, þarf þá bara að venja mig af því. Svona ef ég vill vera samkvæmur sjálfum mér. (hvað er það!)

pólitík
Athugasemdir

birgir.com - 04/09/02 20:48 #

Já, en maður heyrir þetta bara svo oft úr munni frjálshyggjumanna. Setningar eins og "það á hver og einn að geta ráðið því sjálfur hvort hann eyðileggur sig á dópi eða ekki" lýsa þessu í hnotskurn. Mótívasjónin er óheft frelsi og forsjárhyggjuhatur, en minna fer fyrir samfélagshyggju og umhyggju fyrir heildarhagsmunum.

En það er gott að heyra að þessi mótívasjón skuli ekki vera yfir alla línuna.

Kveðja, BB

Matti - 04/09/02 23:26 #

Jamm, enda flestir frjálshyggjumenn kjánar. Ég veit ekkert hvort ég er sannur frjálshyggjumaður. Ég er t.d. ekki á móti fæðingarorlofslögum, þó ég vilji setja þak á greiðslur við t.d. 300.000.- Ég er fylgjandi takmörkun á reykingum (ég er semsagt meira á móti reykingum en með frjálshyggju og svo framvegis.

Ég ætla að velta því aðeins fyrir mér á næstu dögum að hvaða leiti ég er frjálshyggjumaður og að hvaða leiti ekki. (er y í leiti?)

Ég tók þetta bara til mín, því ég er næstum því viss um að þú myndir telja mig til frjálshyggjumanna, þó ég sé ekki að gefa í skyn að þú sért að gera mér upp skoðanir.

Egill - 14/11/02 16:04 #

Það er ekki y í Gróa á Leiti en að því leyti sem þú ert að spyrja um er y.....skemmtilegt.

Annars tel ég mig vera félagshyggjusinnaðan en er samt á því að lögleiða ætti flestar tegundir af fíkniefnum.

Og þá vegna svipaðra sjónarmiða og þið hafið verið að setja fram. Þ.e. vegna þess að ég held að skaðsemi þeirra sé meiri þegar þau eru ólögleg en lögleg.

Ég er ekki á því að allir komi til með að rjúka út í apótek og kaupa sér 10 e-töflur þó þær séu löglegar. Frekar hæpið.

Annars er skemmtilegt að velta fyrir sér þeim rökum að frjálshyggjumenn vilji lögleiða fíkniefni svo einhver geti grætt á því að selja þau. Er ekki einhver að því í dag? Og það big time. Af hverju eru þeir að setja út á það?

kv, Egill

PS: Skemmtilegur vefur hjá þér Matti