Örvitinn

vefdagbækur

Er við sátum á kaffihúsi um daginn félagarnir var ég að segja þeim örlítið frá vefdagbókum.

Á nagportal má meðal annars finna yfirlit yfir hóp Íslenskra bloggara. Megnið af þessu er óáhugavert, annað er hin besta sápa. Inn á milli eru dagbækur sem ég reyni að lesa mjög reglulega.

Birgir er frekar nýlega byrjaður að halda vefdagbók. Ég reyni að lesa hana reglulega enda maðurinn mjög góður penni. Hann leggur sig líka fram við að skrifa eitthvað áhugavert, ólíkt mér (meira um það síðar)

Vinur hans Birgis, Dr. Gunni er einn skemmtilegasti skríbentinn í Íslenskri blogg flóru. Hann er staddur í útlöndum og því er ekkert að gerast í dagbókinni hans þessa dagana.

Uppfært 10.09.02
Þessa, þessa, þessa, þessa og þessa les ég yfirleitt þegar þær eru uppfærðar. Aðrar síður les ég sjaldnar, eins og t.d. þessa, þessa og þessa.

Ég vil svo benda á að það er fyrir neðan allar hellur að tengja á þennan hátt, maður á að segja hvað maður er að vísa í þegar maður tengir á eitthvað á vefnum. Gerið eins og ég segi, ekki eins og ég geri.

Margir aðrir eru skemmtilegir og þessi bloggheimur er að mörgu leiti mjög áhugavert fyrirbæri.

Ég tiltel mig samt ekki tilheyra honum. Eiginlega alls ekki.

Ég legg mig ekki fram um að skrifa áhugaverða pistla eins og Birgir, geri ekki tilraun til að vera fyndinn eins og Dr. Gunni. Afar sjaldan held ég að ég skrifi eitthvað sem einhverjir sem ég þekki ekki gætu haft nokkurn áhuga á að lesa.

Ég skrifa þetta eiginlega fyrir mig!

Stundum hef ég velt því fyrir mér að skipta þessu upp, halda annars vegar prívatdagbók og hins vegar blogg. þá myndi ég hugsanlega skrá bloggið í rss veitu til að fjölga hér heimsóknum.

Bullið gæti hugsanlega orðið eitthvað slíkt, þó það sé meira tilraun til þess að sjá hvað gerist þegar ég rétti vinum mínum svona tæki. Ég var að velta fyrir mér hvort dagbók eins og þessi meö mörgum höfundum væri í rauninni ekki eins og hvert annað spjallkerfi, sér í lagi þegar hægt er að bæta athugasemdum við færslur.

Ein skemmtileg afleiðing þess að halda svona dagbók er að fólk getur bókstaflega villst hingað inn. Reglulega fæ ég heimsóknir frá fólki sem hefur farið á leitarvél og leitað að einhverju ákveðnu. Yfirleitt skilar heimsóknin hingað litlum árangri. T.d. þegar fólk leitar að spínatböku.

Svo er ég kannski að gæla við þá hugmynd um að dag einn muni ég fá áhugaverð hugmynd og hver veit, kannski kem ég henni í stafrænt form. 00101101

Orð dagsins er svefngalsi.

dagbók