Örvitinn

meira maður

Hvað greinir manninn frá öðrum dýrum?

Ég hefði haldið að það væri skynsemin sem maðurinn býr yfir í meira mæli en aðrar tegundir. Reyndar eru til dýravinir sem halda öðru fram en við skulum hunsa þá í þessari pælingu.

Ég tel það því vera skyldu hvers manns að leggja rækt við það sem gerir hann að manni. Vissulega á maður líka að leggja rækt við það sem við eigum sameiginlegt með öðrum dýrum. Hvatir okkar þurfa útrás þó færa megi rök fyrir því að þeir sem hafa stjórn á hvötum séu betri menn fyrir vikið. Það að hafa stjórn á hvötum er ekki það sama og að hunsa þær en það er önnur pæling :-)

Því ætti hver maður að leggja rækt við skynsemi. Gagnrýnin hugsun er tæki sem þarf að viðhalda, annars bilar það. Þegar það bilar er afskaplega erfitt að koma því í lag aftur. Eina leiðin til að laga það er með rökum en ein afleiðing bilunarinnar er sú að rök eru ekki lengur móðins.

Þegar rök og skynsemi þykja hallærisleg, þegar það að ástunda gagnrýna hugsun og efahyggju þykir dæmi um þröngsýni er ljóst að bilunin er farin að breiðast út.

Þá þurfum við hin að leggja rækt við skynsemi. Spá í hlutunum, ekki útiloka neitt fyrirfram en leita að rökum. Ekki trúa einhverju án raka, því ef við gerum það erum við að berjast gegn þvi sem gerir okkur að mönnum. Við verðum minna menn.

efahyggja
Athugasemdir