Örvitinn

helgarskýrsla

Ætli það sé ekki við hæfi að telja upp atburði helgarinnar, svona til þess að setja nú eitthvað inn í dagbókina.

Á föstudagskvöldið fórum við hjónin á Kaffi List og hittum þar dansfélaga okkar. Við vorum semsagt að læra dans í tvær annir með tveimur öðrum pörum, vinkonum Gyðu úr viðskiptafræðinni og þeirra körlum. Þetta var skemmtileg stund, sátum og spjölluðum í góðri stemmingu til miðnættis. Ég hellti í mig þremur stórum bjórum og hafði gaman af.

Á laugardaginn var afmælisboð hjá ömmu hennar Gyðu. Áslaug var 85 ára og bauð fólki heim til sín. Gyða bakaði tvær kökur og gerði það náttúrulega vel, þó stressið hafi nú verið töluvert á tímabili :-)

Ég horfði á fyrri hálfleikinn í landsleiknum heima og svo seinni hálfleikinn í afmælisboðinu. Ekki var það nú mikil skemmtun.

Á laugardagskvöldið var ég svo heima í rólegheitum að dunda mér í tölvunni þegar Davíð Torfi hringdi í mig og bað mig um að halda sér selskap í drykkjunni. Ólafur Þór var með matarboð og Davíð var þar einmana. Ég fór með engum fyrirvara og át góðan mat og drakk heljar magn af víni í boði Davíðs og Óla. Þetta var hin besta skemmtun. Sat þarna og ræddi við vini Hillu hans Óla um stjórnmál í Hollandi og starf lögfræðinga í ráðuneytum (samgöngu). Farið var í drykkjulæti og stemming var almennt ágæt (nema það hafi bara verið ég sem skemmti mér vel og allir aðrir hafi verið að drepast úr leiðindum útaf blaðrinu í mér :-) )

Að lokum rölti hópurinn á Players, það fór þó út í einhverja vitleysu. Ég og Davíð borguðum okkur inn, komnir aðeins á undan hópnum, en restin af hópnum tímdi ekki að eyða 1000 kall í að fara inn á þessa skítabúllu. Ég og Davíð hímdum þarna í smá tíma þar til Davíð fór heim. Ég var í smá tíma í viðbót, kláraði bjórinn minn og spjallaði aðeins við Sæma rokk þar til hann var orðinn hundleiður á mér og lét sig hverfa :-P

Rölti þá af stað heim á leið, fattaði á leiðinni að ég var lyklalaus, þannig að ég rölti til baka á Players til að leita að lyklunum sem ekki fundust þar. Tók leigubíl heim, vakti konuna sem var náttúrulega kát og hress með það.

Komst svo að því daginn eftir að ég hafði gleymt lyklunum heima, sem betur fer.

Vaknaði sjö morguninn eftir með Ingu Maríu sem sofnaði í fanginu á mér klukkutíma seinna. Fékk að sofa þrjá tíma í viðbót þar sem Áróra hetja fór á fætur með Kollu. Sá 85,6 á vigtinni þegar ég fór á fætur á hádegi, lægsta talan sem ég hef séð hingað til (síðan 1993)

Var lítið þunnur, tók til í litla herberginu á neðstu hæð með konunni. Fór með tengdó og hjálpaði honum að færa skrifborð í vinnunni, þar sem þeir eru eitthvað að færa menn til í kjölfar sameiningar.

Fórum svo í kvöldmat til foreldra minna, át helling af unverskri gúllassúpu og svo súkkulaðiköku í eftirrétt í tilefni afmælis mömmu í vikunni.

Þá er það komið, ég held að ekkert vanti.

dagbók
Athugasemdir

Ólafur Kristjánsson - 14/10/02 12:00 #

Það er rétt hjá þér Matti, þetta var ferlega skemmtilegt partí, allir voða glaðir og kátir,ekki bara þú. Skítapakk þetta staff á players, krefjast 1000 kall inn þegar að 5min vori í lokun og alveg óhagganleg með það,maður prumpar bara á svona lið réttir löngutöng til lofts. Annars frábært að allir gátu komið með svona stuttum fyrirvara, sérstaklega þú Matti, hvað var það 5 eða 10 mínútur fyrirvarin sem þú fékkst.