Örvitinn

erindi siðmenntar á málþingi

Jæja, ég ætla að ljúka umfjöllun minni um málþingið um umburðarlyndi í skólum með því að skella hér inn erindinu sem Bjarni Jónsson flutti fyrir hönd Siðmenntar.

Þið getið svo dæmt sjálf hvort þetta er mjög særandi, en Séra Sigurður varð afskaplega sár.

Umburðarlyndi í fjölmenningarsamfélagi

Hvers vænta ólíkir hópar af leikskóla og grunnskóla hvað varðar vinnu með ólíkar lífsskoðanir?

Fundastjóri, góðir fundamenn

Ég vil byrja á því að þakka fyrir það boð að fá að tala á þessu málþingi og kynna skoðanir Siðmenntar. Umburðarlyndi fólks gagnvart þeim sem hafa aðrar skoðanir og lífsýn en það sjálft er forsenda þess að fólk geti lifað í sátt og samlyndi. Í fjölmenningarlegu samfélagi er umræða um og ekki síst ástundun umburðarlyndis sífellt mikilvægara. Fjölbreytnin eykst stöðugt og um leið eykst krafan til okkar, okkar ólíku einstaklinga sem hér búa, um að sýna hvort öðru virðingu með því að viðurkenna rétt fólks til að ástunda þá trú, þá lífsskoðun sem það sjálft velur. Auðvitað þó alltaf með þeim skilyrðum að lífsskoðunin skaði ekki né gangi ekki á rétt annarra til orða og athafna.

Ég mun í þessu stutta erindi byrja á því að kynna almenna afstöðu Siðmenntar en síðan fara yfir í sértækari mál í lokin og að síðustu svara þeirri spurningu sem varpað er fram á þessu málþingi.


Siðmennt
Við sem stöndum að Siðmennt – félagi um borgaralegar athafnir, leggjum áherslu á umburðarlyndi og frelsi fólks til að ástunda þá lífsskoðun sem það sjálft kýs. Í stefnuskrá félagsins stendur m.a. eftirfarandi:
· Félagsmenn leggja áherslu á ábyrgð hvers einstaklings gagnvart náunga sínum. Þeir standa vörð um rétt einstaklinga til að þroskast á ólíkum forsendum og hvetja þá til ábyrgðar bæði á eigin velferð og á velferð annarra.
Enn fremur stendur eftirfarandi.
· Siðmennt lítur svo á að trúfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Það skuli ná til allra og það megi ekki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum. Félagið krefst því aðskilnaðar ríkis og kirkju og berst fyrir breytingum á lagaákvæðum sem mismuna þeim er standa utan trúfélaga.
Siðmennt tekur því undir þann skilning lýðræðissinna í hinum vestræna heimi að skólar sem fjármagnaðir eru með opinberu fé skuli vera hlutlausir og um leið veraldlegar stofnanir. Við teljum að markmið stjórnvalda sé að vernda rétt manna til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa en ekki að vera boðberi ákveðinna lífsskoðana eða trúarbragða. Þess vegna er mikilvægt að námsefni í opinberum skólum sé hlutlaust, laust við allan áróður og sannleikanum samkvæmt.

Gildir þá einu hvort námsefnið tengist stjórnmálum, sagnfræði, vísindum, menningu, trúarbrögðum eða öðrum greinum.

Þá kem ég að þeirri spurningu sem leitast er við að svara hér. Hvers væntir Siðmennt af leikskólum og grunnskólum þegar kemur að því að vinna með ólíkar lífsskoðanir?

Í stuttu máli væntum við hlutleysis, sannleika og sanngirnis. En best er þó líklegast að benda á hvað við teljum að betur mætti fara í núverandi skólastarfi...


Úr stefnuskrá Siðmenntar í trúfrelsismálum
Í námskrá grunnskóla frá 1999 stendur m.a. að:

· Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans ásamt umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi. Þó að þetta eigi við um skólastarfið almennt hlýtur kennsla í kristnum fræðum að sinna þessum þætti sérstaklega og vinna markvisst að því að stuðla að siðgæðisþroska nemendanna í glímu við siðferðileg álitamál. Gengið er út frá því að það sé gert í ljósi kristilegrar siðfræði.

Trúarleg innræting eða "siðfræðikennsla" tengd ákveðnum trúarbrögðum ætti aldrei að eiga sér stað í opinberum skólum eins og við í Siðmennt höfum því miður orðið vör við. Hér er gefið í skyn að umburðarlyndi, lýðræði og siðferði séu sérstaklega kristileg fyrirbæri. Það er auðvitað ekki rétt. Erfitt getur verið fyrir þá sem ekki eru kristnir (trúlausir eða annarar trúar) að hlusta á og sætta sig við slíkan boðskap í ríkisreknum skólum. Í staðinn á að kenna t.d. siðfræði, sögu og heimspeki.

Í sömu námsskrá kemur fram að nemendur eigi að gera sér:

· ...grein fyrir því hvaða þýðingu krossdauði Jesú og upprisutrúin hefur fyrir kristna einstaklinga andspænis dauðanum og þá von sem henni tengist.

Á að kenna þetta í skólum? Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir trúlausa og þá sem eru annarar trúar? Hafa kirkjunnar menn sett sig í fótspor t.d. múslima og reynt að gera sér í hugarlund hvað þeim finnst um þetta?

Samkvæmt námsskrá er tilgangur kristnifræðslunnar:

· [efla] trúarlegan... þroska [nemenda]

Í námsskrá grunnskólans kemur fram að kenna eigi börnum bænir og sálma auk þess sem því er haldið blákalt fram að ýmsar goðsögur kristinnar trúar, þ.m.t. að meyfæðing og upprisa Jesú, séu sagnfræðilegar staðreyndir.

· Kristin trú á sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentisins, sem ná hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists.

Þennan einhliða boðskap eiga öll börn á grunnskólaaldri að hlýða á nema að foreldrar og forráðamenn óski sérstaklega eftir því að börnum þeirra sé hlíft. Þessu veigra forráðamenn sér eðlilega við að gera því þá lenda börn þeirra jafnvel í því að þurfa að hanga ein fram á gangi meðan kristinfræðslan á sér stað og þurfa að svara spurningum um hvers vegna þau eru svona ólík öðrum. Er hér ekki komin ágætt uppskrift að einelti?

Mörg dæmi eru um að heilu skóladögunum sé eytt í að kenna börnum að semja og fara með kristnar bænir og stundum kemur fyrir að farið er með börn í kirkju á skólatíma og þá jafnvel án leyfis foreldra.

Við höfum fjöldamörg dæmi þess að fermingarfræðslunni svokölluðu sé komið fyrir inni í miðri stundaskrá nemenda þannig að fermingin lítur út fyrir að vera hluti af eðlilegu skólastarfi. T.a.m. er í sumum grunnskólum farnar dagsferðir með krakkana á skólatíma fyrir fermingarfræðslu. Þetta er bæði óréttlátt og líklegast brot á grunnskólalögum sem kveða á um fjölda kennsludaga auk þess að vera brot á lögum um trúfrelsi.

Kirkjan skákar oft í skjóli þess að 85% þjóðarinnar séu skráðar í Þjóðkirkjuna og flestir hinna söfnuðanna séu kristnir á einn eða annan hátt. Sú röksemd stenst ekki. Það læðist að mér sá grunur að kirkjunnar menn geri sér fulla grein fyrir því að það að vera skráður í Þjóðkirkjuna er ekki sama og að vera trúaður. Innskráningarformið er nú ekki til þess að hrósa sér en best birtist afstaða almennings í afstöðunni til aðskilnaðar ríkis og kirkju.

Því ber ekki að neita að kristin trú hefur verið stór hluti af menningararfi Íslendinga um margar aldir og haft mikil áhrif á líf og aðstæður manna í gegnum tíðina en ég tel þessi áhrif hafi verið bæði jákvæð og neikvæð. Það er því mjög mikilvægt að grunn- og framhaldsskólanemum séu gerð grein fyrir hver þessi áhrif trúarbragða hafa verið en að það sé gert sem hluti af almennu sagnfræðinámi.

Dæmisögur foreldra
Eins og ég nefndi fyrr í máli mínu hefur Siðmennt borist margar kvartanir frá foreldrum barna á leikskóla- og grunnskólaaldri. Spanna þær kvartanir mörg svið. Mig langar að lesa fyrir ykkur úr tveimur bréfum foreldra sem okkur hefur borist. Þau endurspegla þessa upplifun trúlausra sem ég hef lýst hér að framan og eru aðeins tvö dæmi af mörgum:

Ég á aðeins uppkomnar dætur en þær lentu á 9unda áratugnum báðar í vandræðum vegna hneykslunartals KENNARA á trúleysi þeirra, voru báðar skammaðar beint fyrir framan bekkinn fyrir að trúa ekki á guð. Önnur þeirra, sú skapfastari, var spurð 13 ára ásamt öðrum í bekknum hvort hún tryði ekki örugglega á guð og hún svaraði neitandi og fékk svívirðingar kennara fyrir vikið.

Í hitt skiptið gerðist atvik þegar yngri dóttir mín ákvað að taka þátt í fyrstu borgaralegu fermingunni. Þegar einn kennaranna frétti þetta, nb. það var ekki fyrrnefndur kennari né kristinfræðikennari, hélt sú langar tölur yfir bekknum um siðleysi trúleysis og borgaralegrar fermingar.

Og annað dæmi:
Dóttir mín lenti í atviki sem átti sér stað í hittifyrra þegar hún var í 5. bekk í Snælandsskóla. Í einum kristinfræðitímanaum bað kennarinn alla sem tryðu á Guð að rétta upp hönd! Dóttir mín þorði ekki annað en rétta upp hönd eins og allir hinir. Ég velti því fyrir mér hvað ætli hefði gerst ef hún hefði ekki gert það -- ætli kennarinn hefði farið að láta hana standa fyrir máli sínu fyrir framan alla krakkana?.

Ef þetta er ekki skoðanakúgun þá veit ég ekki hvað er það. Hvernig getur manneskja með kennaramenntun, sem hefur væntanlega lært heilmikið um uppeldisfræði og annað slíkt, látið sér detta í hug að beita 10 ára börn þrýstingi á þennan hátt? Hefur hún virkilega aldrei heyrt talað um hópþrýsting? Og hvað kemur henni það við hverju krakkarnir trúa? Ætli hún segi líka í samfélagsfræðitímum: "Rétt upp hönd, allir sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þegar þeir verða stórir"?

Afstaða kirkjunnar í dag
Á yfirstandandi Kirkjuþingi liggur fyrir tillaga sem ber nafnið: Tillaga að þingsályktun um kirkju og skóla. Mig rak í rogastans þegar ég las hana og þó sérstaklega rökstuðningnn með henni. Því miður virðist kirkjan ekki ætla að láta af trúboði sínu heldur reyna allt hvað af tekur að bjarga saklausum sálum varnarlausra barna okkar. Tillagan er tímaskekkja og er í hrópandi mótsögn við allt tal um umburðarlyndi gangvart öðrum.


Eitt örlítið dæmi til viðbótar. Í síðustu viku var viðtal við einn af skipuleggjundum þessa málþings á síðu 8 í Morgunblaðinu og barst talið að þeim sem hafa uppi andstöðu við trúboð kirkjunnar í skólum. Kom fram að það séu ekki fólk annarar trúar heldur eins og segir í viðtalinu: “Þeir sem fetta fingur út í þetta samstarf eru yfirleitt Íslendingar sem af einhverjum orsökum hafa kosið að fjarlægast kirkjuna”. Það má kannski vera til marks um óþarfa viðkvæmni mína en “að fjarlægjast kirkjuna”. Við erum einfaldlega trúlaus og teljum trúaruppeldi ekki eiga heima í skólum. Einnig má spyrja sig að því hvort útlendingar sem sest hafa að hér á landi hafi haft frammi mótmæli við ýmsu órétttlæti sem það verður vart við? Það tel ég af og frá. Af eigin reynslu sem foreldri en einnig hafandi búið 7 ár erlendis þá eru flóttamenn eða aðrir útlendingar EKKI þeir fyrstu til þess að mótmæla ranglæti. Þeir einfaldlega þora það ekki.


Ég vil benda á að sem betur fer hefur kirkjan á síðustu árum verið að gera sér grein fyrir breyttu þjóðfélagi. Málflutningur hennar hefur verið á þann hátt, eins og má skilja hér á framsöguerindi Sr. Sigurðar hér á undan, að taka þurfi tillit til lífs- og trúarskoðanna annara. Samt á ég mjög erfitt að skilja það hvers vegna kirkjan virðist ekki komast að þeirri rökréttu niðurstöðu að láta af trúboði í leikskólum og á grunnskólastigi. Kirkjan talar um umburðarlyndi en ástundar hún það? Í þessu sambandi er gott að hafa eftirfarandi í huga:

Það er ekki hvað þú segir heldur hvað þú gerir

Að lokum
Hér að framan hef ég bent á að láta beri af einhliða trúboði evangelísku kirkjunnar í skólum. Ég hef beint spjótum mínum að núverandi ástandi og gagnrýnt hvernig að því er staðið. Ég hef einnig bent á þá lausn að kenna eigi þess í stað siðfræði, heimspeki og mannkynssögu.

En að lokum til þess að svara spurningunni, í sem fæstum orðum, sem varpað er hér fram og Siðmennt var beðið um að svara: Hvers væntir Siðmennt af leikskóla og grunnskóla hvað varðar vinnu með ólíkar skoðanir - þá er svarið einfalt:

Látið börnin í friði - látið heimilin um trúaruppeldi en notið ekki aðstöðu ykkar til að stunda trúboð í skólum.

Ég þakka áheyrnina.

efahyggja
Athugasemdir

Gyða - 17/10/02 13:27 #

Mér finnst þetta mjög gott erindi hjá Bjarna Gyða