Örvitinn

efahyggja á undanhaldi

Efahyggja er dáldið undarlegt fyrirbæri. Í rauninni er þetta mjög einföld afstaða til tilverunnar. Efahyggjumaður trúir ekki því sem ekki hefur verið rökstutt. Þetta þýðir ekki að efahyggjumaður efist um alla hluti.

"Venjulegt fólk" er yfirleitt afskaplega hissa á því hvað efahyggjumaðurinn eyðir mikilli orku í að efast. "Hefur maðurinn ekkert betra við tímann að gera?" Spyr það og heldur áfram ferð sinni á færibandi lífsins.

Samt er það þannig að allir hafa sterkar skoðanir á einhverju og eru tilbúnir að rísa upp og verja það ef á það er ráðist. Davíð vinur minn sem trúir flestu sem hægt er að trúa á leggur mikið á sig til að verja lífsskoðun sína þegar þannig liggur á honum. Honum stendur ógn af efahyggjumanni eins og mér sem sést best á því að yfirleitt er það hann sem á frumkvæðið að tali um reynslu sína af miðlum þegar slíkt ber upp. Ég sit bara og reyni að þegja endan búinn að læra af reynslunni.

Samt er ég öfgamaðurinn á svæðinu. Þessi sem situr hljóður úti í horni og segir ekki neitt. Það er ég sem allir horfa á og bíða eftir að segi eitthvað. Stundum virðist fólk fara í röð til þess að benda mér á hitt eða þetta sem það trúir á og er afskaplega merkilegt og ég geti ekki afsannað. Það hafi sko sjálft upplifað það og það sé nú skynsamt og hafi ekki verið gabbað.

Það er líka merkilegt að hugsa til þess að flestir sjá trú (á hvað sem er) sem jákvætt fyrirbæri og efann sem eitthvað neikvætt. Trúin byggir upp en efinn brýtur niður. Þetta er náttúrulega akkúratt öfugt, trúin er uppgjöf mannsandans. Það að trúa einhverju er það sama og að gefast upp á skynseminni. Gefast upp á því að vera manneskja.

Efinn er eitthvað sem fólk hræðist vegna þess að það vill trúa.

Margir eru þó til sem ekki trúa en furða sig samt á því hversu mikilli orku efahyggjumenn eyða í pælingar sínar og rökræður við hina og þessa. Þeim þykir óeðlilegt að maður gefi því einhvern gaum sem maður trúir ekki á. Þeir telja hið eðlilega ástand felast í einhverju áhugaleysi um fyrirbærið.

Ég hef kenningu um hvað þarna er í gangi. Hún er sú að þessir aðilar vilji ekki/þora ekki að stiggja umhverfið. Þeir aðilar sem ég þekki sem falla inn í þennan heim þegja því frekar en að andmæla og sannfæra svo sjálfa sig um að hlutleysið sé hið eðlilega ástand. Gallinn er bara sá að það er rangt. Hlutleysið, sinnuleysið er bara doði. Fólk sem nennir ekki að hafa skoðanir missir fljótt hæfileikann til að hafa skoðanir.

Það að sjá góða efahyggjumenn gefast upp (athugið linkurinn var vitlaus, vísa núna í rétta grein) finnst mér vera svipað og að sjá bráð gefast upp fyrir rándýri. Sjá að allar leiðir eru lokaðar. Ekkert sem þú gerir breytir neinu og það sem verra er, hjörðin lítur niður á flóttatilraun þina. Hjörðin hefur engan áhuga svo lengi sem ekki hún er óhullt.

Ég efast um allan andskotann og ég hika ekki við að láta uppi skoðanir mínar um það. Að einhverju leyti er þetta eflaust röskun á persónu minni, ég legg ekki nógu mikið á mig til að gera öllum til geðs. Ég tala þegar ég ætti að þegja. En konan mín getur nú vottað fyrir það að yfirleitt bít ég á tunguna og sleppi því að leiðrétta ruglið þegar við erum stödd á mannamótum. Ég fæ útrás á spjallþráðum og hér í dagbókinni.

Það er ekkert jákvætt við sinnuleysi. Staðreyndin er sú að þarna úti er fólk sem lýgur að hjörðinni. Reynir að lokka dýrin úr henni eitt og eitt með það eitt í huga að rífa það í sig. Tæta það í sundur þar til ekkert stendur eftir af manneskjunni.

efahyggja
Athugasemdir

Gyða - 18/10/02 11:55 #

Þetta er mjög fín grein hjá þér Matti minn en það sem kom mér samt meira á óvart er hvað þú og birgir.com eruð með líkar skoðanir. Vissi ekki að það væri til annað eintak af þér þarna úti :-) Og þegar ég segi þetta við Matta þá segir hann bara ja nema það að hann er félagshyggjumaður mmmm annar alveg eins og Matti en félagshyggjumaður en ekki ..... mmmm ætli ég hafi nokkuð gifst vitlausu eintaki :-O

Gyða sem er mjög sátt við valið sitt en vildi stundum geta lagað aðeins stjórnmálaskoðanir eiginmannsins :-)

Matti Á. - 18/10/02 12:00 #

Er ég ekki alveg hættur að hafa einhverjar stjórnmálaskoðanir :-|

birgir.com - 18/10/02 12:39 #

Falleg grein, ég fékk alveg adrenalínpump í brjóstholið við að lesa hana.

En ég er ekki að gefast upp, aðeins skipta um taktík :)

Matti Á. - 18/10/02 13:05 #

Það er gott að þú ert ekki að gefast upp... ég átti nú reyndar heldur ekki von á því. Var kominn með grunninn að þessari grein í kollinn á mér í gærkvöldi en átti erfitt með að skrifa hana niður með dóttur mína sofandi í fanginu á mér.

Þegar ég las svo greinina þína small hún inn í þetta.

Mjólkurpósturinn á vísi var kveikjan að þessum pælingum.

En ég hlakka til að fylgjast með nýrri taktík hjá þér. Held þú megir alveg skrifa um annað en trúmál, þó ég hafi gaman af þeim pælingum þá er líka gaman að hinu.