Örvitinn

vísindi í sjónvarpi

Var að horfa á Scientific American Frontiers á National Geographic Channel sem er ein rásanna á fjölvarpinu.

Þessi þáttur er einn allra besti þátturinn sem sýndur er í sjónvarpi í dag. Alan Alda fjallar á mjög áhugaverðan hátt um vísindi. Synd og skömm að hérlendar sjónvarpsstöðvar skuli ekki sýna þennan þátt og þá náttúrulega á besta tíma. Vísindi eru nefnilega mjög áhugaverð og það er ekki mikið mál að setja þau fram á þann hátt að flestir hafi gaman að. Hér á landi er bara boðið upp á Nýjasta tækni og vísindi með Sigurði Richter og satt að segja er sá þáttur ekki upp á marga fiska.

Í þættinum sem ég sá í kvöld var verið að fjalla um mataræði. Það sem mér þótti áhugaverðast var umfjöllun um mataræði barna og svo rannsóknir sem benda til þess að besta mataræðið til að halda heilsu til langframa virðist samkvæmt ákveðnum rannsóknum vera að borða færri hitaeiningar en mælt er með, þ.e.a.s. of fáar hitaeiningar en nóg af næringarefnum. Sláandi var að sjá muninn á músum sem voru annars vegar á venjulegu mataræði og svo hinum sem voru á of fáum hitaeiningum. Tveggja ára gamla voru þær í venjulega hópnum eins og öldungar (sem þær eru) en hinar voru sprækar og hressar í búrunum sínum.

Ég þarf að setja í dagatalið að horfa á þennan þátt því ég hef lært eitthvað nýtt og áhugavert í hvert sinn sem ég sé hann. Mæli með því að þið kíkið á hann ef þið náið honum. Ekki oft sem það er eitthvað fróðlegt í imbanum.

dagbók