Örvitinn

kem ekki orðum að því

Stundum langar mig að segja eitthvað en á erfitt með að koma orðum að því.

Ég hef velt þessari færslu fyrir mér síðustu daga en á voðalega erfitt með að koma henni frá mér. Set hana inn ókláraða.

Klára hana aldrei.

Þegar maður les viðtöl við fullorðið fólk talar það yfirleitt alltaf um að það sé heilsan sem skiptir það mestu máli. Það er ekki fyrr en maður missir heilsuna sem maður gerir sér grein fyrir því að hún er allt sem máli skiptir. Fólk sem hefur gengið í gegnum sjúkdóma eða lent í slysi virðist öðlast annað verðmætamat en við sem höfum sloppið áfallalaust í gegnum lífið.

Ein ástæðan fyrir því að ég fór í ræktina í fyrra var að ég var orðinn stressaður útaf heilsunni. Ég vissi að ef ég yrði rúmlega 110kg áfram myndi heilsan fljótt gefa sig og ég var einfaldlega orðinn hræddur. Fann fyrir mikilli löngun til að halda heilsu og lifa lengi. Langar að vera hress með barnabörnum og barnabarnabörnum. Tilviljun og erfðir munu hafa sitt að segja í þeim efnum en það sem ég get haft áhrif á ræðst af gjörðum mínum.

Einar Ásmundsson frændi minn dó í fyrradag. Hann og pabbi voru bræðrabörn og jafnaldrar, báðir fæddir 1954. Ég þekkti Einar ekkert mjög mikið. Rámar í að við fjölskyldan umgengust Einar og Hjöllu í gamla daga, man samt ekki beint eftir því. Foreldrar mínir voru ágætir kunningjar þeirra. Sonur þeirra er þremur árum yngri en ég, dóttir þeirra rúmlega tvítug.

Ég hitti hann síðast í vor í kvöldmat hjá mömmu og pabba. Hann var hress að sjá. Ég hafði ekki hugmynd um veikindin fyrr en mamma og pabbi sögðu mér frá því síðar. Í dag er ekkert óeðlilegt að karlmenn séu hárlausir.

Pabbi fór reglulega í heimsókn til hans undir það síðasta. Hann var rúmfastur, lamaður fyrir neðan brjóst. Held hann hafi haldið rænu lengst af en mókað síðustu dagana.

Krabbamein er hrikalegur sjúkdómur þegar hann nær yfirhöndinni. Ég skil ekki hvernig stendur á því að fólk sem stendur mér nærri framkvæmir hluti sem auka líkurnar á að það fái þennan sjúkdóm. Allir sem hafa fylgst með fólki ganga í gegnum þetta ferli og deyja að lokum hljóta að vilja gera allt sem þeir geta til að forðast sömu örlög.

Það hlýtur að vera.

dagbók