Örvitinn

"þú braust á stelpu"

Loftið í sjónvarpsstofunni er hvítara í dag en í gær. Erum búin að vera að sparsla, pússa og mála þessa helgi. Verkið gengur vel og á morgun ætla ég að skella málningu á veggina. Þarf líka að hringja í rafvirkja og sjá hvort það sé ekki hægt að redda því sem þarf að redda í lagnamálum.

Ég var afskaplega depremeraður í gær eftir að Liverpool tapaði sínum fyrsta leik á leiktíðinni. Skap mitt lagaðist þó lítið eitt við það að spila innibolta, enda fátt betra en að hlaupa um lítinn sal með sveittum strákum og sparka tuðru!

Í kvöld spilaði ég svo í Egilshöll í Grafavogi í fyrsta sinn. Þetta er yfirbyggður gervigras völlur og aðstaðan er vægast sagt frábær. Djöfulsins rosa munur er að spila þarna. Vorum að spila æfingaleik við Rúmfatalagerinn. Unnum 6-2 og hefðum átt að vinna stærri sigur.

Lið Rúmfatalagersins var ansi misjafnt, margir mjög góðir leikmenn en svo aðrir slakari inn á milli.

Í liði þeirra var ein stelpa sem lék ansi vel, tæklaði mig í seinni hálfleik og ég skammast mín bara ekkert fyrir það ;-) enda vann ég boltann strax af henni aftur. Skömmu eftir það virtist eitthvað æði gripa einn leikmann Rúmfatalagersins sem reyndi að brjóta á mér í hvert sinn sem ég fékk boltann. Það tókst reyndar ekki hjá honum en ég var orðinn vægast sagt pirraður á þessu. Þegar leik lauk vék ég mér að honum og spurði hvað í ósköpum væri eiginlega í gangi. "Þú braust á stelpu" sagði þá pilturinn og játaði þar með að hann hefði verið að reyna að brjóta á mér síðustu 10 mínútur leiksins. Við þetta óx mér skap enda braut ég ekkert á stelpunni, heldur sýndi henni bara hversu jafnréttissinnaður ég er og vann af henni boltann á heiðarlegan hátt (slagurinn ekki mjög jafn þegar ég er eflaust 30 kílóum þyngri) og eyddi ég alltof miklum tíma í að þrasa við strákinn. Hefði betur sleppt því enda var hann bara 15 ára smábarn.

En ég braut ekki á stelpu :-)

boltinn dagbók