Örvitinn

helvítis strætóbílstjóri

Ég tók þristinn frá Hlemmi niður Hverfisgötu í morgun. Ég passa mig alltaf að sitja framarlega í vagninum þessa leið vegna þess að það kemur fyrir að hann lendir á rauðu ljósi á Klapparstíg.

Ef vagninn stoppar þar og ljósið er nýorðið rautt rölti ég alltaf fram og fæ bílstjórann til að hleypa mér út. Hingað til hefur það ekki verið neitt mál.

Í morgun hitti ég strætóbílstjóra dauðans sem hafði aðrar hugmyndir. Af hverju ferð þú ekki út á stoppustöð eins og aðrir, sagði hann. Nú vegna þess að við erum hér stopp á rauðu ljósi og ég vinn hér rétt hjá svaraði ég dáldið hissa. Ég hef það fyrir vinnureglu að hleypa ekki fólki út á ljósi sagði hann þá valdmannslega.

Ég sá að það þýddi lítið að rökræða þessa vinnureglu en benti honum á að það stæði á skilti frammi í vagni að bannað væri að ræða við vagnstjóra í akstri en alla leiðina frá Hlemmi hafði fullorðin kona staðið við hlið bílstjórans og skrafað við hann.

Þegar ég fór út úr vagninum á næstu stoppustöð þakkaði ég honum kærlega fyrir liðlegheitin.

Í útvarpinu hljómaði Death is not the end með Nick Cave.

dagbók