Örvitinn

vídeóviðgerð

Hljóðið hvarf.

Áróra og Kolla voru að horfa á Lísu í Undralandi á vídeó áðan þegar hljóðið hvarf skyndilega. Engu máli skipti hvort horft var á spóluna eða sjónvarpið í gegnum myndbandstækið. Ekkert heyrðist nema skerandi þögn.

Ég sá fyrir mér 15000 króna viðgerð eða fjárfestingu í nýju tæki. Það væri náttúrulega svekkjandi í ljósi þetta að tækið er ekkert mjög gamalt og við keyptum okkur vandað (les: dýrt) tæki.

Þá rifjaðist upp fyrir mér að í jólahlaðborðinu í Perlunni um daginn var Kristján Kristjáns hljóðmaður að segja frá því að hann nennti aldrei að þrífa vídeótækið, kærastan sæi alltaf um það. Ég var þá að furða mig á því að ég hika ekki við að rífa tölvur sundur og saman en hef aldrei gert tilraun til að gera við önnur heimilstæki.

Reif því allt úr sambandi, skrúfaði vídeóið sundur og hófst handa. Tækið var furðu hreint, sama og ekkert ryk í því. Aftur á móti heyrðist grunsamlegt hljóð þegar ég tók tækið upp og þegar ég opnaði það fann ég sökudólginn. Krónupeningur hafði laumast inn í tækið og lá þar í góðu róli.

Eftir að hafa skrúfað tækið saman og tengt allar snúrur virkar allt eins og það á að virka.

Þarna sparaði ég eflaust 15.000.- kall eins og ég sagði áðan. Spurning um að ég komi við í BT á heimleiðinni úr World Class og eyði sparnaðinum ;-)

tækni