Örvitinn

Hvers vegna frelsara?

Þetta er heitið á erindi sem Páll Skúlason rektor flutti í Dómkirkjunni 1. desember 2002 og er birt í Lesbók Morgunblaðsins í dag.

Að mínu mati eru greinar Páls oft frekar leiðinlegar, mér finnst hann stundum ekki nógu fókuseraður og vaða úr einu í annað. Kannski eru þetta bara fordómar í mér eftir að hafa setið fyrirlestra hjá honum í Heimspekinni á sínum tíma.

Ég átti ekki von á góðu þegar ég byrjaði að lesa greinina áðan og hún byrjar líka ekki gæfulega. En í síðari hluta erindisins fer Páll á flug.

Í stað kristinnar heims- eða lífsskoðunar væri því nær að tala um kristilega lílfssýn, lífið í ljósi Krists - lífiðá andartaki lausnarinnar þegar mannssálin rís úr rústum syndarinnar, hörmunganna og eyðileggingarinnar. Kristur táknar og sýnir sigur lífsins yfir dauðanum; það er kjarni hinnar kristilegu lífssýnar. Hér snýst spurning ekki um gildar skoðanir og rök og ekki er lagt upp til umræðu um staðreyndir lífssins. Staðreyndir lífsins benda raunar allar til þess að lífið lúti í lægra haldi fyrir dauðanum, það eina sem við vitum með nokkurri vissu sé að við sleppum ekki lifandi frá lífinu. Þess vegna er hin kristilega lífssýn glapsýn eða missýn sé hún tekið bókstaflega sem skoðun á lífinu og dauðinn talinn vera hjóm og blekking. Dauðinn ásamt þjáningu, eymd og böli, sem honum fylgja er sannarlega ekki blekking, heldur blákaldur veruleiki, daglegt brauð okkar mannanna. ... Þessi frelsunarsaga er sannkallað ævintýri, fantasía sem er engu lík og óþrjótandi uppstretta líknar og lausnar. En hún er ekki heimsskoðun, miklu fremur trú á fjarstæðukennda hluti og furðulega veru og verur og stendur í sjálfu sér miklu nær draumórum en skynsamlegum skoðunum á lífinu og tilverunni. Hún er ekki ómerkari fyrir það, öðru nær. Ef kristin trú væri heimsskoðun og þegar hún er skoðuð sem slík, þá verður hún eins og hver önnur hjátrú og hindurvitni, tóm vitleysa hvernig sem á hana er litið. Og þessi vitleysa getur meira að segja orðið stórhættuleg, ef menn taka hana bókstaflega og ætla að leggja hana gagnrýnislaust til grundvallar skoðunum sínum á lífinu og tilverunni.

Jahjá, svo mælti rektor.

efahyggja
Athugasemdir

Matti Á. - 28/12/02 21:11 #

Páll kom mér skemmtilega á óvart með þessu erindi. Þess skal þó gæta að ég valdi náttúrulega bestu bitana úr erindinu, annað er "síðra". Ég var að leita að þessu erindi á netinu áðan en fann hvergi. Sjáum til hvort ég nenni að pikka allt erindið inn síðar.

Páll Skúlason hefur dáldið svæfandi talanda, ég vona að kirkjunnar menn hafi hrokkið upp þegar þessi setning bergmálaði í Dómkirkjunni: "Ef kristin trú væri heimsskoðun og þegar hún er skoðuð sem slík, þá verður hún eins og hver önnur hjátrú og hindurvitni"

birgir.com - 28/12/02 22:34 #

Einmitt, það þarf dálítinn kjark til að standa sem rektor háskólans fyrir altari dómkirkjunnar og segja þessi orð. En ég fann ræðuna á Moggavefnum og sá að hún er full af leiðinlegum undabrögðum, málamiðlunartali og skorti á afdráttarleysi.

Matti Á. - 28/12/02 23:01 #

Ég passa mig á að muna bara það sem mér hentar ;-) hinu gleymi ég.