Örvitinn

samhengislaust þvaður

Ég er vakandi, klukkan korter gengin í tvö. Inga María er líka vakandi, grætur uppi í rúmi hjá Gyðu. Hér á eftir fylgja hugrenningar. Samhengislaust þvaður.

Er loksins byrjaður að lesa Hitler's willing executioners. Er bara búinn með innganginn. Hrikalega get ég verið latur við að lesa, alltof stór hluti tímans fer í netráp og sjónvarpsgláp.

Fór í nýjar buxur í dag, 33" mittismál. Komst í þær með herkjum en þær passa betur núna þegar ég er búin að vera í þeim heilan dag. Fyrir fimmtán mánuðum var í ég buxum númer 42. Ég var gáttaður á því hversu lélegt úrval var af buxum í minni stærð, þótti það hrikalega lélegt hjá fataverslunum. Á sama tíma tuðaði ég oft undan því hversu litlir skammtarnir voru á veitingastöðum.

Ég kvarta ekki lengur.

Það er í rauninni stórmerkilegt hvað það hefur haft mikil áhrif á mig að fara í gegnum þessar þróun. Breytingin er bæði líkamleg og andleg. Ég nefndi það í yfirlitinu um daginn að ég hefði loksins þorað að fara í sund á síðasta ári. Ég var ekkert að grínast, það var ekki séns að fá mig í sund 114kg. Við hvað var ég hræddur? Eflaust var ég bara hræddur við sjálfan mig.

Hvers konar heift er þetta? Ég veit það ekki. Stundum er ég reiður, bálreiður. Stundum er ég gáttaður, horfi á fólkið og skil ekki hvað veldur þessu. Finnst ég vera persóna í skáldsögu. Einn af fáum sem sé hvað er að gerast.

Er það hroki? Eflaust. Ég er ekkert hræddur við eigin hroka. Hroki er misskilið hugtak. Ég afsaka mig ekki fyrir skoðanir mínar, ég hendi þeim fram. Auðvitað fæ ég það stundum óþvegið til baka, yfirleitt á ég það skilið. Hógværð trúmanna er stærsta lygi sem til er. Það er engin hógværð í trú, þvert á móti byggist trú á fullkomnum hroka gagnvart skoðunum annarra. Trúmaður gefur skít í rök sem stangast á við trú hans. Honum gæti ekki staðið meira á sama. "Þessu trúi ég og það er ekkert sem þú getur gert við því"

Ég var að velta því fyrir mér hvaða von er til þess að koma viti fyrir fólk. Nei frekar, hvaða von er til þess að koma vitinu fyrir þjóð? Eru það ekki örlög lýðsins að vera blekktur, dreginn á tálar, í þessu tilviki af stofnum með tvöþúsund ára reynslu í því að draga lýð á tálar.

Fyrir hvern þann sem hefur þörf fyrir að líta á veröldina í ljósi skynsemi eru þúsundir sem þrá ævintýrasýn á veröldina. Reiðast þegar maður dyrfist að leggja fram spurningar. Leggja að jöfnu gagnrýni og neikvæðni. Trúgirni og jákvæðni. Sæll er sá sem flestu trúir, sæll er sá sem öllu trúir.

Menn skrifa lærðar greinar um stjórnmál og lýðræði. Ég hef aldrei trúað á lýðræði einfaldlega vegna þess að mér finnst lýðurinn heimskur. Ég skil ekki þá sem vilja auka þáttöku almennings í ákvarðanatöku, t.d. með fleiri þjóðaratkvæðisgreiðslum, rafrænum kosningum og þess háttar. Hundrað þúsund fótanuddtæki benda ekki beinlínis til þess að þessi lýður verði tilbúinn til þess að mynda sér skoðun á því hvaða bindi passar við hvaða skyrtu á næstu árum. Hvað þá veigameiri ákvarðanir. Hroki ?

Menntað einveldi er svarið hélt ég einu sinni. Veit ekki hvað ég held í dag. Held ég haldi ekki neitt. Vald spillir, það er ég viss um. Það eina sem ég er sannfærður um í dag er að það má ekki hleypa neinum nálægt völdum sem sýnt hefur mikinn áhuga á stjórnmálum og stjórnmálastarfi fyrir tvítugt. Þetta á sérstaklega við um bjánana sem tóku þátt í starfi ungra Sjálfstæðismanna í Garðabæ þegar ég var ungur. fjórtán ára gamalmenni með pólitíska drauma. Það hefði þurft að vana þetta lið, það hefði þurft að vana foreldra þeirra.

Ég hef litla trú á anarkisma, enga trú á kommúnisma og hef aldrei trúað á hreinan kapítalisma. Jafnaðarstefna hefur alltaf virkað fráhrindandi á mig, finnst eins og þar fari úlfur í sauðagæru. Menn séu stundum uppteknari af því að gera suma höfðinu styttri í stað þess að lyfta öðrum upp. Allt í nafni jöfnuðar.

Einu sinni var mér lýst sem úlf í sauðagæru. Sú lýsing var réttmæt, er það eflaust enn. Stúlkan sem fékk þá viðvörun lýsti mér síðar sem gamalli sál. Það er þvaður.

Það er komin ró í húsið, ég vaki einn, fæ að sofa út í fyrramálið.

dagbók