Örvitinn

Stórvirkjanir og tilfinningar

Mæli með rabbi Atla Harðarsonar í lesbók Morgunblaðsins í gær.

"Hafi verið rökrætt af einhverju viti um tilfinningar fólks sem er á móti Kárahnjúkavirkjun þá hefur það a.m.k. farið fram hjá mér. Margir andstæðingar virkjunarinnar hafa vissulega gert grein fyrir tilfinningum sínum og jafnvel málað þær nokkuð sterkum litum. Fylgismenn framkvæmdanna hafa hins vegar gert afar lítið til að svara þeim sem tjá tilfinningalega afstöðu gegn þeim. Í stuttu máli má segja að annar hópurinn hampi tilfinningum og hinn hafni þeim. Afleiðing þessa er frekar leiðinleg og ógáfulega umræða sem einkennist m.a. af því að andstæðingar virkjunarinnar hafa uppi sífellt meiri ýkjur og gífuryrði og talsmenn hennar tala bara um efnahagslegu hliðina en hliðra sér hjá að ræða um önnur efni sem líka skipta máli, eins og t.d. ást fólks á landinu"

pólitík
Athugasemdir

Ragnar - 04/03/03 05:18 #

Mér hefur nú sýnst að þau séu ekki minni tilfinningarökin hjá virkjanasinnum. Að minnsta kosti virðast þeir meira beita tilfinningum en rökum í sínum málflutningi, sbr. nánast allan málflutning Valgerðar Sverrisdóttur.

Svipað og Göring gerði á 3ja áratugnum. Segja bara sama hlutinn svo oft að fólk nennir ekki að hlusta og ákveður bara að samþykkja. Valgerður veit nefnilega að fólk nennir almennt ekki að hugsa.

Virkjanasinnarnir verða líka alltaf svo reiðir ef eitthvað er sagt sem kemur ekki heim og saman við þeirra málflutning. Það eru alltaf þeir sem missa sig, hvað er málið? Er málstaðurinn veikur? Þolir hann illa naflaskoðun? Hvað hækka vextirnir mikið, hvað hækkar verðbólgan, hvað hækkar rafmagnið, hvað gerist þegar álverðið hækkar ekki um tugi prósenta? Nei, ef fólk spyr þessara spurninga, þá er fólk bara á móti öllu. Og á hverju eiga blessaðir Reyðfirðingarnir að lifa? Fjallagrösum? Já, þau eru dýrleg öll rökin hjá virkjanasinnunum.

En gott og vel, það er ekki eins og 150 milljónir hafi skapað 170 störf í kvenna-krafts-átakinu - Eyðum bara 100 milljörðum í að búa til nokkur hundruð í viðbót.