Örvitinn

konur - veljið láglaunamenn

Fyrirsögn fréttarinnar er: Sambúð hækkar laun kvenna um 20% en tvöfaldar laun karla

"Karlar í sambúð hafa tvöfalt hærri tekjur en þeir sem ekki eru í sambúð eða 3,3 milljónir króna í árstekjur á móti 1,7 milljónum króna, að því er kemur fram í erindi sem Ingólfur V. Gíslason, starfsmaður Jafnréttisskrifstofu, flutti á Grand Hóteli í hádeginu. Ráðstefnan í dag var haldin í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna sem er á morgun, 8. mars.

Þó svo að kona fari í sambúð er ekki jafnlíklegt að tekjur hennar hækki líkt. Í erindi Ingólfs kemur fram að árið 2000 hafi meðaltekjur kvenna sem ekki voru í sambúð verið 1,3 milljónir króna á ári en kvenna í sambúð 1,5 milljónir króna eða um 20% hærri. Því er ljóst að karlar sem ekki eru í sambúð eru með hærri tekjur en konur í sambúð og er munurinn um 12%. "

Áður en við göngum af göflum yfir því órétti sem konur eru beittar, sérstaklega konur í sambúð skulum við hinkra andartak. Hvað er eiginlega í gangi hérna?

Trúir einhver því að það sé orsakasamhengi á milli þess að byrja í sambúð og að tekjur hækki? Eflaust eru einhver dæmi þess að menn vinni meira eftir að sambúð hefst til að sjá fyrir konu og börnum. Einnig er eflaust töluvert um að konur hefji barneignir eftir að sambúð hefst. Tekjur hækka með aldrinum og fólk hefur sambúð þegar það eldist.

Ég túlka þetta samt frekar þannig að karlar sem hafa lágar tekjur eiga erfitt með að finna sér maka. Konur vilja ekki lágtekjumen. Tekjur kvenna skipta aftur á móti litlu sem engu máli þegar kemur að því að velja maka.

Konur, hættið að leita að manni sem skaffar vel og veljið góðan láglaunamann. Sýnið jafnrétti í verki, ástandinu verður ekki breytt nema með átaki. Konur, veljið lágtekjumenn. Þeir hafa rétt á að vera í sambúð eins og menn með hærri tekjur.

:-P

feminismi