Örvitinn

draugar ofsækja börn

Gyða benti mér á þennan þráð á spjallinu á barnalandi.

Er hann skyggn eða...?

Það er eitthvað að gerast hjá syni mínum sem er 18 mánaða. Það hefur ýmislegt gerst og er farið að aukast núna á síðustu vikum. T.d. síðasta sumar þegar hann var ca. 10 mánaða vorum við mæðginin inni í herberginu okkar ( bý hjá mömmu) og hurðin var lokuð. Við vorum bæði við hurðina og mamma mín var inni í herbergi á móti okkar. Svo var allt í einu bankað þrisvar á hurðina hjá okkur, mjög ákveðið. Ég sagði kom inn en enginn kom (hélt það væri bróðir minn sem er eldri en ég) svo ég opnaði og kallaði á hann en þá var hann niðri og vissi ekkert um hvað ég var að tala svo ég spurði mömmu en hún hélt að ég hefði verið að banka! Og á meðan var sonur minn dauðhræddur! Um daginn varð hann svo allt í einu skelfingu lostinn tvo daga í röð (inní herbergi) og rauk í fangið á mér og hélt fast utan um mig, ég átti sko að passa hann vel. Í bæði skiptin horfði hann á eitthvað, það var alveg greinilegt. Við vorum að flytja núna um helgina og ég var að vona að þetta myndi hætta þá en síður en svo. Nú er hann farinn að kjökra á kvöldin (minna á nóttunni) og ýta "einhverju" frá sér! Mér líður frekar illa yfir þessu vegna þess að ég finn sjálf að það er eitthvað nálægt honum og það er virkilega óþægilegt. Við búum rétt hjá kirkjugarði, veit ekki hvort það sé málið en samt, hefur einhver reynslu af svona???

Merkilegt hvað fólk getur stundum oftúlkað ímyndunarafl barna. Ef börn sitja og stara út í loftið er það vegna þess að þau eru að horfa á látinn ættingja. Ef þau vakna grátandi á nóttinni er það vegna þess að einhver draugur er að hrella barnið.

Furðulegt, mín reynsla er sú að eyrnabólga, magakveisur og önnur veikindi séu algengari ástæður þess að börn vakni grátandi. Lausnin felst í því að faðma börnin, gefa þeim verkjastillandi og leita til læknis. Oft eru börnin óörugg, hrædd við myrkrið, vakna upp af vondum draum. Faðmur foreldris er meðalið við slíku.

Yfirleitt lagast þetta á skömmum tíma, t.d. stuttu eftir að hringt er í miðil. Fólk er gjarnt á að þakka miðlum og öðrum kuklurum þegar ástandið batnar en þegar það batnar ekki hef ég ekki orðið var við að fólk tengi það gagnslausum tiltraunum kuklara.

13:25
Gyða benti mér á hvað er líklega að hrjá barnið.

efahyggja
Athugasemdir

birgir.com - 18/03/03 21:53 #

Maður verður alltaf jafn rasandi yfir því hvað samborgarar manns geta verið illa upplýstir, á þessum tímum tækni og þekkingar. Hvað ætli það sé í manneðlinu sem fær fólk til að hrapa iðulega að langsóttustu skýringunni?

Matti Á. - 18/03/03 22:02 #

Ekki er nóg með að fólk hrapi iðulega að langsóttustu skýringunni heldur er ég sannfærður um að því yrði mjög illa tekið á spjallþræðinum hjá barnalandi ef ég myndi velta því upp þar hvort hugsanlega væru til jarðbundar skýringar á þessu öllu saman. Ég hef oft orðið vitni (og valdur) að því á hinum ýmsu spjallþráðum.