Örvitinn

Klaufi á hjóli

Það er langt síðan þetta gerðist síðast.

Þegar ég var að hjóla í vinnuna í morgun tókst mér að detta og meiða mig. Var að hjóla niður tröppur sem liggja frá strætóskýli við Reykjanesbraut niður í Elliðaárdal þegar ég missti vald á hjólinu og féll framfyrir mig. Setti hendurnar fyrir mig og fékk hjólið á eftir! Ég var nú ekki á neinni ferð, gleymdi bara að vanda mig við að hjóla í beinu raufinni í tröppunum. Kom sem betur fer niður á sléttum kafla í miðjum tröppum.

Fyrstu viðbrögð mín voru að sjálfsögðu þau að tékka á því hvort einhver hefði séð mig! Hvað er málið með það? Ég var afskaplega feginn að enginn var staddur nálægt, en þegar ég spái í því hefði ég alveg getað slasað mig illa í þessu falli og hefði þá kosið að einhver hefði orðið vitni að þessu. Jafnvel þó ég hafi litið asnalega út.

Hélt á tímabili að ég hefði brotið hægri hendi en jafnaði mig og gat hjólað áfram. Held ég hljóti að vera í lagi.

dagbók