Örvitinn

strætóbækur - púkaveröld

Þeir sem taka strætó hafa tekið eftir því að nú hanga bækur aftan á sætum í tilefni viku bókarinnar. Ég hef undanfarið verið að glugga í bók í strætó, þó ekki bækurnar sem þar er boðið upp á heldur úr eigin safni. Hef reynt að taka bók sem hægt er að lesa í nokkrum lotum þar sem ég kemst ekki yfir mjög mikið í hverri ferð þó ég lesi frekar hratt.

Peopleware eftir Tom DeMarco og Timoty Lister var fyrsta strætóbókin. Mjög merkileg bók um starfsumhverfi og áhrif þess á framleiðni í upplýsingageiranum. Skyldulesning fyrir tækninörda, ef þið vinnið í tölvugeiranum og yfirmaður ykkar hefur ekki lesið þessa bók, kaupið hana þá og laumið á skrifborðið hans.

Billions and billions eftir Carl Sagan var svo næsta strætóbók, þykir hún ágæt þó sumir kaflar fari reyndar nokkuð í taugarnar á mér, sérstaklega kaflarnir þar sem hann fjallaði um umhverfismál. Lokaorð bókarinnar eru svo magnþrungin, þar sem segir frá síðustu dögum Sagan. Ég felldi nokkur tár (í strætó!) þegar ég las um síðustu stundir hans þegar börnin voru komin til að kveðja. Vakti athygli mína að konan hans sér tilefni til þess að taka það sérstaklega fram að Sagan hefði ekki tekið trú á dauðastundu. Trúmenn hafa nefnilega verið dáldið gjarnir á að gera mönnum upp trú, svona eftirá. Vinsælt að halda því fram að hinir og þessir hafi nú séð að sér á dánarbeði.

Næsta strætóbók er bókin Demon haunted world einnig eftir Carl Sagan. Ég las hana fyrir tveimur árum en fannst kominn tími á að glugga í hana aftur. Demon haunted world er fantagóð bók. Hvað eftir annað stoppa ég við málsgreinar sem mig langar að snara á íslensku. Sérstaklega hef ég gaman af að lesa umfjöllun um trúarbrögð og vísindi og samanburðinn þar á. Umfjöllun um aðferð vísinda er aðgengileg og fróðleg. Það skal þó tekið fram að ég er rétt byrjaður á bókinni, er á kafla tvö.

Demon haunted world er bók sem þyrfti að koma á framfæri hér á landi. Skoðum það eftir að blekking og þekking er komin út :-)

bækur
Athugasemdir

birgir.com - 28/04/03 13:50 #

Akkúrat. Ég var einhvern tíma farinn að sjá fyrir mér seríu bóka sem út kæmu á vegum SAMT: Sagan, Barker, Dungal, Ingersoll, Humphrey o.fl. Heilmikil þörf fyrir þessar bókmenntir á íslenskum markaði sem hefur á undanförum áratugum verið dálítið kaffærður í gervivísindum og dulhyggju.