Örvitinn

Helgaryfirlit

Þá er þessi helgi liðin líkt og aðrar helgar sem liðið hafa. Ætli sú næsta líði ekki líka!

Hvað hefur gerst? Á laugardag ætlaði ég í hádegiskaffi til tengdó með fjölskyldunni en þurfti að bregða mér í vinnuna með engum fyrirvara. Verið að uppfæra EVE á laugardegi sem eftirá séð var afskaplega heimskulegt. Héðan í frá verða uppfærslur ekki um helgar. Klukkan eitt fór ég og spilaði æfingaleik með Henson, mættum Rögnunni á Ásvöllum. Rögnumönnum gekk illa að ná í lið, fyrstu 10 mínútur leiksins voru þeir tveimur mönnum færri. Lentu líka tveimur mörkum undir. Ekki jafnaðist þetta mikið þegar lið þeirra var fullskipað, staðan í hálfleik var 6-0. Síðari hálfleikur var svo allt annar leikur, Ragnan "vann" hann 3-2.

Á meðan ég spilaði þennan leik voru Diddi bróðir og Tóti frændi með Kollu og Ingu Maríu í fjölskyldugarðinum. Ég brunaði í sturtu eftir leik og sótti svo stelpurnar. Gyða var að djamma með vinkonum sínum. Við stelpurnar skelltum okkur í Kringluna, ég að tékka á nýjum gemsa.

Fórum svo heim og slökuðum aðeins á, varla samt hægt að tala um slökun þar sem stelpurnar voru upptjúnaðar sökum sælgætisáts á nammideginum mikla. Okkur gekk þó nokkuð vel að starfa saman, stelpurnar voru komnar í bælið og sofnaðar áður en yfir lauk, ég gat plantað mér í sófann fyrir framan sjónvarpið og horft á annan kaflann Guðföðurs trílógíunnar. Inga María vaknaði um miðnætti, að lokum (reyndar næstum strax) tók ég hana niður og hún svaf í fanginu á mér þar til Guðfaðirinn þagnaði. Gyða kom svo alltof snemma heim, læddist inn rétt rúmlega tvö og þykir mér það hálf slakt djamm :-)

nokia7210.gif
Á sunnudeginum fórum við í Smáralind til að tékka á síma og fleira. Endaði það með því að ég fjárfesti í síma í BT. Þessi sími hafði fítusinn sem ég var að leita að, innbyggt útvarp. Var svo að fikta í gærkvöldi við að tengja hann við tölvuna og fór á netið í gegnum gemsann við mikinn innri fögnuð. Gaman væri að sjá hvort hægt er að fá GPRS til að virka síðar. Ég var næstum því búinn að kaupa þennan síma hjá Vodafone, en neyddist til að bíða með það þar sem Gyða þurfti að ganga frá málum vegna þess að þetta er allt á hennar nafni. Já, það fer ekki á milli mála hver er húsbóndinn á okkar heimili. Ráfaði inn í BT og sá þá símann sem ég keypti á lægra verði en þann sem ég var næstum búinn að kaupa. Síminn sem ég keypti kostaði 40.000 hjá Vodafone og símanum, 28.000 hjá BT. Síminn sem ég var næstum búinn að kaupa kostaði 29.000

Horfði svo á lokakafla Guðföður þríeykisins fram á nótt. Ég verð að segja að mér þykja tvær síðari myndirnir síðri en sú fyrsta.

Líkur þar með þessu helgaryfirliti, vonandi nutuð þið lesturins. Góðar stundir.

dagbók
Athugasemdir

JBJ - 19/05/03 15:48 #

Það held ég að þið hafið verið með hiksta á laugardeginum... :p