Örvitinn

Musteri þekkingar

Í næstum því hvert skipti sem ég geng framhjá Hallgrímskirkju eru túristar að taka myndir af hofinu. Þetta er víst það sem túristar gera, taka myndir af hofum. Í morgun þegar ég rölti á Skólavörðuholtinu fór ég að velta því fyrir mér hverslags sóun og heimska er fólgin í þessum kristnu hofum. Aragrúi húsa byggð til þess eins að hylla anda og drauga. Fara með galdraþulur, flytja pólitískar messur og halda tónleika. Dyrnar snúa í vestur útaf einhverri hjátrú, pyntingartól í hásæti, Jesú að drepast á krossinum. (Það var víst voðalega mikil fórn, þrátt fyrir að engu hafi verið fórnað) Milljónaverðmæti sem hefur verið prangað frá lýðnum í aldanna rás skreytir veggi.

Ég sneri baki í Kirkjuna og gekk niður Skólavörðustíginn. Af hverju sleppum við því ekki að byggja Kirkjur næstu fimmtíu árin og byggjum vísindakirkju. Nei, ekki Scientology.

Vísindi. Ég er að tala um risa byggingu, hundrað metra turn sem lætur Hallgrímskirkju líta út fyrir að vera það musteri heimskunnar sem hún er, nákvæmlega eins og vísindin sýna trúarbrögðin sem þá heimskudýrkun sem þau eru.

Vísindakirkjan yrði tileinkuð þekkingu mannsins. Ekki yrði minnst einu orði á trú í húsinu enda eru trú og vísindi andstæður þó sumir trúmenn klóri í bakkann og reyni að halda öðru fram, trú og vísindi eru ekki systur. Líffræðisalur, eðlisfræðisalur, heimspekisalur. Reglulega yrði skipt um sýningar og það nýjasta í tækniheiminu sýnt. Bókasafn með miklu úrvali fræðibóka. Skólakrakkar kæmu í skoðunarferðir og undur vísinda yrðu kynnt fyrir þeim á aðgengilegan máta. Heimspekingar ræddu við þau um siðferði, fagurfræði og frumspeki. Engar helvítis predikanir.

Fólk gæti jafnvel fengið að halda borgaralegar athafnir í salarkynnum hússins.

Hvernig væri að eyða eins og tíu milljörðum í svona hýsi? Sleppa því að byggja hof. Þetta myndi vekja athygli um víða veröld og hingað myndu vafalítið margir koma til þess að skoða þetta musteri þekkingar.

efahyggja
Athugasemdir

Regin - 28/05/03 11:35 #

Amen!