Örvitinn

Sunnudagur í miðri viku

Hvaða dagur er eiginlega í dag? Ég hef varla hugmynd um það, er líka alveg sama :-)

Var að vinna fyrripart dags, fyrst hér heima en skaust svo í höfuðstöðvarnar um eitt til að ganga frá pötchum. Uppgötvaði kjánalega villu, skrítið hvað flestar mínar villur eru kjánalegar.

Þegar ég var búinn að ganga frá því sem þurfti fórum við í sund. Ætluðum í Laugardalslaug en þurftum frá að hverfa, fengum ekki bílastæði. Skelltum okkur þá í Breiðholtslaug og höfðum það fínt þar. Kolla renndi sér í ótal sinnum í litlu rennibrautinni, fór svo sér eina ferð í stóru brautinni með mér, eina ferð. Inga María buslaði í fanginu á okkur, fór þrjár ferðir í litlu rennibrautinni. Áróra og Hrafnhildur vinkona hennar voru hálf daufar til að byrja með. Hímdu í horni laugarinnar og gerðu mest lítið. Að lokum skelltu þær sér í stóru rennibrautina að áeggjan minni. Það þurfti ekki að spyrja að því, auðvitað þótti þeim það gaman og fóru margar ferðir áður en yfir lauk.

Eftir sundferð skelltum við okkur í ísbúð. Fórum í nýju ísbúðina í Faxafeni, þar var nóg að gera, 20 manns á undan okkur. Þetta gekk þó hratt enda nóg af starfsfólki að afgreiða. Ég gerði mistök, fékk mér bragðaref. Bragðarefur er eiginlega bara of mikið af því góða, svona líkt og að fá sér sykur út á kókó puffs.

Skutluðum Hrafnhildi heim, Áróru til pabba síns og skelltum okkur svo í kvöldmat til tengdó. Þau voru með boð í gær þar sem veitingar voru frá uppáhaldsveitingastaðnum okkar, Austur Indíafélaginu. Mikið hrikalega er allt sem þeir gera gott. Ég át yfir mig af ýmsum réttum og nokkrum tegundum af nan brauði. Át þar til mig bókstaflega verkjaði í magann. Stundum er gott að éta á sig gat.

dagbók