Örvitinn

Stjórnmálalast

Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar stjórnmálakenningar eða foringjadýrkun löglegs stjórnmálaflokks, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.

Væri ekki fáránlegt ef þetta væri bundið í lög ?

efahyggja
Athugasemdir

Eggert - 05/06/03 23:49 #

Finnst þér þetta svo fáránlegt? Ath. að þetta á líka við um önnur trúarbrögð en kristni. Ég hefði haldið að þetta væri almenn kurteisi? Athugaðu að viðkomandi er heilagt í augum einhverra, og því særandi og svívirðandi að draga dár að því. Á þetta við um seremóníur Siðmenntar :)? Vissulega má líta svo á sem þetta skerði málfrelsi, en það er margt annað þarna sem skerðir málfrelsi líka.
Séð og Heyrt ætti t.d. að líta á þetta: "229. gr. Hver, sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári."

Ætli það sé ekki hægt að finna einhversstaðar eitthvað niðurlægjandi fyrir t.d. ásatrú, búddatrú og múslima, sem einhverjir kirkjunnar menn hafa sagt? Ég man nú ekki betur en að Davíð Oddsson (sá kirkjunnar þjónn) hefði t.d. sagt að múslímsk samfélög gætu aldrei verið réttlát samfélög, það er kannski ekki nógu sterkt til orða tekið.

Matti Á. - 06/06/03 00:04 #

Já mér finnst fáránlegt að það sé bundið í lög að ekki megi draga dár að eða smána trúarkenningar eða trúarleiðtoga.

Af hverju gildir ekki það sama um pólitískar skoðanir, enska boltann eða hljómsveitir. Mjög margir geta verið viðkvæmir fyrir þessu og þessi efni geta verið heilög í augum einhverra. Það skiptir bara engu máli.

Það getur verið að þetta sé almenn kurteisi en til hvers að hafa lög? Þurfum við að setja lög um að fólk þakki fyrir sig þegar það er búið að borða? Nei það er almenn kurteisi. Þetta eru lög. Ef þú brýtur þau og einhver nennir að kæra eru líkur til þess að þú þurfir að sitja inni eða greiða sekt. A.m.k. þarftu að eyða tíma og peningum í að verja þig í dómsal.

Ég veit ekki af hverju þú heldur að ég einskorði þetta við kristni. Í lögunum er skýrt tekið fram að þetta gildi um öll viðurkennd trúfélög á Íslandi. Ég minnist ekki einu orði á kristni!