Örvitinn

Teljarablogg

Áðan sá ég bloggara tala um teljarablogg þegar smella þarf á meira til að lesa færslur í dagbók. Í minni dagbók þarf einmitt að smella á meira til að lesa færslur á forsíðu. Einungis fyrstu þrjár til fimm færslurnar eru í heild sinni á forsíðunni. Ástæðan fyrir þessu er að ég vil koma fleiri færslum fyrir á forsíðunni en vil samt hafa hana létta í hleðslu. Ef ég skrifa langar færslur hef ég einnig bara fyrstu málsgreinina á forsíðunni.

Seint verð ég sakaður um að vera teljarabloggari enda er ég ekki með teljara á síðunni. Þó skal þess getið að þar sem ég keyri minn eigin server get ég auðveldlega fylgst með því hverjir lesa bullið sem hér má finna. Ég væri þó einungis að blekkja sjálfan mig ef ég beitti brögðum til að hækka teljarann og svo grunnur er ég ekki.

Hinir raunverulegu teljarabloggarar eru þeir sem blogga oft á dag en hafa lítið innihald í hverri færslu. Ef menn vilja vera samkvæmir sjálfum sér og ekki falla í þennan skelfilega hóp teljarabloggara geta þeir gert eins og ég og undanskilið ákveðnar færslur úr rss yfirlitinu. Það er lítið mál í MT, búið bara til flokk fyrir þær færslur sem ekki eiga að fara í yfirlitið. Sækið svo excludecategories plugin og setjið það upp. Þvínæst lagið þið rss templateið og notið excludecategories til að halda þeim flokkum sem þið viljið úr yfirlitinu.

En auðvitað er akkúrat ekkert að því að vera teljarabloggari. Menn eiga ekkert að skammast sín fyrir það. Oft þykir mér gaman að lesa stuttar færslur eða vísbendingar á annað merkilegra frá slíkum bloggurum þó þeir séu nú yfirleitt ekki fyrstir með fréttirnar.

Sami bloggari þorir ekki að hafa athugasemdir í sinni dagbók. Það er ákvörðun sem ég skil vel því oft vill fólk misskilja tilgang athugasemdakerfa og drullar vel og innilega yfir þá sem halda dagbókina. Kosturinn við MT er að einfalt er að eyða út einstökum athugasemdum og því er þetta ekki raunverulegt vandamál. Ég hef ekki eytt athugasemdum úr minni dagbók hingað til þó athugasemdir í minn garð hafi stundum verið ódrengilegar. Ég skrifa yfirleitt ekkert sérlega drengilegan texta og verð því bara að bíta í það súra þegar ég fæ það óþvegið til baka. En það er nú samt fyndið að bloggarinn og vinir hans eru einmitt ansi duglegir við að drulla yfir fólk, bæði aðra bloggara og líka þá sem ekki blogga. Því er spéhræðslan dálítið skondin í því ljósi.

vefmál