Örvitinn

Trúlausir prestar

Það sem Kirkjuna vantar er meira af trúlausum prestum. Það segir sig sjálft að ef forsenda þess að vera prestur er að vera sérlega trúgjarn mun einungis ákveðið hlutmengi mannsins fara í það starf. Það hlutmengi kalla ég gjarnan örvita en það er nú ekki mikill pólitískur réttrúnaður fólginn í slíku skítkasti. Mjög lítill hluti íslendinga er jafn trúaður og flestir prestar Þjóðkirkjunnar. Við erum því í þeirri undarlegu aðstöðu að presturinn messar yfir líðnum sem innst inni trúir fæstu af því sem blessaður presturinn segir.

En hvað annað á maður að kalla fólk sem trúir því bókstaflega að Jesú Jósefsson frá Jerúsalem hafi verið sonur Gvuðs og hafi gengið hér á jörðu til að boða fagnaðarrendið. Á þeim tíma vann hann það sér helst til afreka að stumra yfir flogaveikissjúkling og bölva vínvið fyrir að virða náttúrulögmálin. Af hverju má ekki gera grín að fólki sem heldur að náttúrulögmál séu eitthvað sem gildir bara stundum.

Eins og danski presturinn sem þessi styr stendur um núna sýnir ágætlega getur fólk alveg verið trúað þó það sé ekki bókstafstrúar. Það getur trúað á eitthvað æðra afl, tilvist sálar og að eitthvað taki við þegar jarðvist líkur. Þessi trú er ekki rökrétt en hún er ekki beinlínis bjánaleg heldur. Ég held að langflestir íslendingar sem skilgreina sig Kristna falli undir þessa lýsingu.

Um daginn ræddi ég við Áróru um Nóa flóðið. Það kom nefnilega í ljós að hún trúir sögunni bókstaflega, að Nói hafi fengið það verkefni hjá Gvuði að smíða skip og hafi svo troðfyllt það af dýrum merkurinnar. Áróra er skynsöm stúlka sem fær alveg fáránlega góðar einkunnir í skóla. Samt trúir hún þessu, meðal annars vegna þess að þessi ævintýri eru kennd eins og um sagnfræði sé að ræða. Það eru fleiri ástæður en ég ætla ekki að tíunda þær að svo stöddu.

Ég rökræddi þetta ekki við Áróru, hún má trúa svona kjánasögum á þessum aldri. En fullorðið fólk sem trúir galdrasögum Biblíunnar en hlær að leið af sögunum um fílagvuði Indverja þarf að taka sér smá stund og velta tilverunni fyrir sér. Því satt best að segja hefur það enga afsökun fyrir þessum fíflaskap.

efahyggja