Örvitinn

Strætóvæl vefþjóðviljans

Hvað með það þó strætó mengi eitthvað meira en fólksbíll með 2,4 farþegum. Það eru til önnur rök en umhverfisrök fyrir því að reka strætó.

Ýmislegt veldur því að margir hafa ekki efni á því að eiga bíl, vissulega ber ríkið sök í því máli þar sem stór hluti kostnaðarins við að eiga og reka bíl er skattar og gjöld. Ég hef ekki efni (né áhuga) á að eiga tvo bíla. Því nota ég strætó þegar ég nenni ekki að hjóla. Það er líka fínt að taka strætó, ekki nærri því jafn slæmt og margir vilja láta. Maður fær fínan tíma til að lesa og hlusta á útvarpið. En ólíkt því sem einhverjir umhverfisanarkíkommar halda þá þarf ég að eiga þokkalegan fjölskyldubíl, annað er bara ekki hægt með fimm manna fjölskyldu.

Af hverju borga ég þá ekki sjálfur allan kostnaðinn við strætóferðir mínar kynnu einhverjir að spyrja, t.d. grautfúlir kommar sem lásu þetta. Jú, málið er að ólíkt grautfúlum kommum og öfgafullum kapítalistum er ég fylgjandi því að ríki og sveitarfélög taki ýmis verkefni að sér. Ekki öll eins og kommarnir, en sum ólíkt kapítalistunum. Ég hef engan sérstakan rétt á því að aðrir niðurgreiði mínar strætóferðir en ég tel að samfélagið sé betur statt með því að bjóða upp á þennan valkost.

Mín vegna mætti vera ókeypis í strætó og reykingargjarnan banna. Ég er samt sannfærður um að það er hægt að reka strætó betur og fyrir minni pening en nú er gert. Sumum leiðum væri hægt að sinna með fimm manna fólksbíl utan álagstíma en í stað þess ekur 40 manna rúta um með engan farþega.

Ég byrjaði á þessum pistli fjórða júní en nennti ekki að klára. Rakst á hann þegar ég var að fara yfir "edit entries" í MT og ákvað að skella honum inn lítt breyttum. Einhverjum kann að finnast tilvísunin í reykingar undarleg en ástæðan er sú að sífellt væl vefþjóðaviljamanna útaf mannréttingarbroti á reykingarmönnum fer í taugarnar á mér.

pólitík
Athugasemdir

JBJ - 16/06/03 15:49 #

100% sammála í þetta sinn, oftast er það á bilinu 20-80% :p

Matti - 16/06/03 16:34 #

Skrítið, oftast er ég 100% sammála mér ;-)

Strumpurinn - 16/06/03 18:35 #

Ég er sammála þessu. Er reyndar strætógimp sjálfur. Ætla ekki að prósentu mæla hversu sammála ég er þér í hverju og hverju tilfelli.

Strumpakveðjur :)

Ragnar - 11/07/03 15:37 #

Strætó á Íslandi er fyrirbæri sem ég hef orðið sífellt ánægðari með eftir því sem reynsla mín af óríkisstyrktum almenningssamgöngum í t.d. USA hefur aukist.

Auðvitað má bæta þær stórkostlega. Ein hugmynd væri t.d. að skilgreina hverja stoppistöð með tíma þannig að ÖRUGGT væri að vagnar færu ekki frá hverri einustu stoppistöð fyrir einhvern fyrirfram skilgreindan tíma. En þetta er nú framfaraskref sem aðeins einkafyrirtæki gætu gert (en mundu aldrei gera)