Örvitinn

Inga María fær rör í eyra

Inga María fékk rör í vinstra eyrað í morgun en rörið sem var þar fyrir hafði dottið út og vökvi var farinn að safnast fyrir í miðeyra þannig að hún heyrði ekkert með því eyra og var farin að finna fyrir óþægindum.

Ég hef tvisvar farið með Kollu í röraðgerð en Gyða fór með Ingu Maríu í fyrra skiptið.

Kolla var frekar slöpp eftir síðustu aðgerð og Inga María vældi víst frekar mikið síðast þannig að ég kveið dáldið fyrir. Það var óþarfi þar sem þetta gekk eins og í sögu. Inga María vaknaði hress og kát og er búin að vera hin hressasta. Hún borðaði vel þegar við komum heim og nú horfum á stubbana (en ekki hvað) og hún leikur sér.

Nóttin var frekar erfið þar sem Inga María mátti ekkert drekka en hún er nú vön að súpa á nóttunni. Við létum hana því sofa í sínu herbergi í alla nótt og fórum til hennar þegar hún vaknaði og svæfðum hana aftur. Við ákváðum að skipta með okkur vöktunum, ég fór fyrst þegar hún vaknaði, Gyða svo um miðja nóttina og ég svo aftur þegar nálgaðist morgun. Þetta gekk bara nokkuð vel, hún vaknaði ekki mjög oft og sofnaði fljótt hjá mér. Gyða þurfti að vera ansi lengi hjá henni um miðja nótt. Best þótti mér að ég gat svæft hana aftur tæplega sjö þannig að Inga María svaf í sínu rúmi til átta. Kosturinn við það er að þá var bara hálftími þar til við áttum að mæta til læknis og því þurfti ekki að halda henni frá mat og drykk þegar hún var vakandi.

Ég tók mér frí í vinnu og verð heima með Ingu Maríu í dag.

dagbók