Örvitinn

Síðasta nótt

Hér er sagt frá því hvernig mér og Ingu Maríu gekk að komast í gegnum nóttina. Þeir sem ekki hafa áhuga á slíku geta því hætt lestri.

Í stuttu máli gekk þetta ágætlega. Inga María vaknaði oftar en nóttina þar á undan en á móti kemur að hún sofnaði alltaf mjög fljótt aftur. Jafnvel var það oft nóg fyrir mig að taka hana í fangið og þá teygði hún sig aftur í rúmið sitt. Lengsti lúrinn var næstum þrír tímar held ég, þó getur vel verið að ég hafi vaknað og farið til hennar en muni bara ekkert eftir því. Inga María svaf svo til rúmlega átta í morgun.

Það má alveg búast við því að einhver af næstu nóttum verði erfið, alltaf hætta á því að það komi smá bakslag, en ég er bjartsýnn á að þetta muni ganga vel og að innan tíðar muni hún sofa næstum því alla nóttina.

Einn kosturinn við það að vakna reglulega á nóttunni er að maður getur gripið tækifærið og tæmt þvagblöðruna sem gerir það að verkum að þegar farið er á fætur er maður eiturhress og alveg laus við að vera í spreng. Ég nennti þó ekki á fætur klukkan sjö í morgun eins og stefnt var að, svaf til átta og fór í vinnuna samferða stelpunum sem er ósköp notalegt, þó ég muni ekki ná átta tímum í vinnunni. Ég vinn það upp heima (er reyndar löngu búinn að því).

prívat