Örvitinn

Dagurinn í dag

Inga María er eitthvað óvær, var vakandi í klukkutíma í nótt, sofnaði eftir að ég gaf henni verkjalyf. Var svo hress í morgun þegar ég skutlaði henni til dagmömmunnar. Dagmamman hringdi svo í Gyðu og sagði að Inga María væri alveg ómöguleg, gerði ekkert nema gráta þannig að ég þurfti að fara úr vinnu og sækja hana um hádegi.

Hún var að sjálfsögðu hress og kát þegar ég mætti á staðinn, hafði þá eitthvað jafnað sig. Við fórum þó heim, fengum okkur að borða og svo reyndi ég að fá hana til að leggja sig. það tók dágóðan tíma en hún sofnaði að lokum.

Klukkan fjögur fórum við og sóttum Kollu á leikskólann og Gyðu í vinnuna, komum svo heim. Kolla var enn og aftur óskaplega erfið, grét og réð lítið við sig. Ég var að gefa henni að borða og virðist það hafa dugað, hún er a.m.k. skapbetri núna. Gyða skaust á læknavaktina með Ingu Maríu til að láta kíkja í eyrun á henni, maður veit aldrei hvort það amar eitthvað að þessum börnum í eyrunum eða ekki. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það ætti að afhenda foreldrum eyrnaveikra barna einhvernskonar stafræna eyrnamyndavél sem hægt væri að nota til að mynda eyru barnanna og senda svo til sérfræðinga sem gætu sagt til um hvort skoða þyrfti eyrun betur. Það er óþolandi að vera sífellt að fara með börnin til læknis til að láta hann skoða eyrun, tekur lækninn 2 mínútur en foreldra og börn klukkutíma með akstri og bið.

Í kvöld er ég svo að fara að spila aftur með Henson, núna á móti Dynamo Norðurland og hefst leikurinn klukkan átta á gervigrasinu Ásvöllum Hafnafirði.

prívat