Örvitinn

Henson - Dynamo Norðurland

Henson 1 - 2 Dynamo Norðurland

Úff hvar á ég að byrja? Niðurstaða þessa leiks er lélegur brandari, misheppnuð tragedía, mannlegur harmleikur. Mannlegur harmleikur þar sem undirritaður tók sig til og tapaði fótboltaleik einn og óstuddur. Það er ekki oft sem einn leikmaður tapar fótboltaleik, sérstaklega ekki þegar lið hans er að yfirspila lið andstæðingana en ég tapaði leiknum. Ef ég væri hestur væri búið að skjóta mig.

Það var dökkur himin yfir Hafnafirði þegar ég ók að Ásvöllum tuttugu mínútur yfir sjö í kvöld. Veðrið var ágætt, smá gola og gekk á með skúrum en það var ekkert til að væla undan, bara íslenskt sumarveður.

Henson var sterkara liðið frá byrjun, spilaði boltanum ágætlega og uppskar mark um miðjan fyrri hálfleik, Axel átti góða sendingu upp vinstri kant, Kjartan stakk sér inn fyrir vörnina og lék upp kantinn þar sem hann átti stórfína sendingu fyrir mark sem Pétur skallaði laglega. Norðanmenn vildu fá rangstæðu en fengu ekki.

Henson sótti áfram af kappi og átti nokkur góð færi, meðal annars komst ég einn í gegn og hafði bæði pláss og tíma ætlaði að leggja boltann út við stöng en skaut framhjá markinu vinstra megin. Skömmu síðar fengu Dynamo menn sína einu alvöru sókn í fyrri hálfleik, gáfu langa sendingu upp vinstri kantinn þar sem leikmaður þeirra var algjörlega óvaldaður, lék innfyrir og skoraði framhjá góðum markmanni Henson. Þið megið giska á hver hefði átt að valda þennan mann í þessu tilviki. Reyndar kemur það til þar sem vörn Henson hafði riðlast útaf skiptingum og skipulagið var ekki alveg í lagi, en það var ég sem hefði átt að drullast aftur til að dekka manninn sem skoraði.

Ég byrjaði leikinn á hægri kanti en fór í senter í síðari hluta fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var 1-1.

Henson byrjaði síðari hálfleik af krafti og strax á fyrstu mínútu sótti Henson upp kantinn þar sem ég fékk boltann gaf sendingu fyrir en ekkert kom út úr því. Henson sótti áfram á fullu og fékk fullt af færum en tókst ekki að skora. Dynamo Norðurland fengu aftur á móti svona tvær-þrjár sóknir og fengu hornspyrnu í annari þeirri og skoruðu með skalla úr henni. Staðan orðin 2-1 fyrir Dynamo. Það sem eftir var leiks sótti Henson stíft og leikmenn Dynamo pökkuðu í vörn, fremstu menn þeirri léku stóran hluta síðari hálfleiks rétt fyrir framan eigin vítateig. Boltinn small að minnsta kosti tvisvar í tréverki Norðanmanna, ef ekki oftar. Þrátt fyrir þetta tókst Henson ekki að jafna leikinn og situr nú í neðsta stæi A riðils með eitt stig.

Þáttur minn í þessu tapi er ótrúlega stór, það er ekki oft sem hægt er að benda á einn leikmann og segja að hann hafi tapað leiknum en ég er ekki að ýkja þegar ég segi að ég tapaði þessum leik, ég prívat og persónulega.

Ég fékk fjögur dauðafæri og skoraði ekki úr neinu. Fyrsta færi kom um miðjan fyrri hálfleik og er lýst hér fyrir ofan.

Í seinni hálfleik komst ég meðal annars einn í gegn en Snæbjörn hirti af mér færið og skaut framhjá auk þess að vera rangstæður. Ég var í úrvals færi og var að fara að skjóta með hægri en ætli ég hefði ekki sparkað beint í markmanninn miðað við frammistöðu mína fyrir framan markið í þessum leik.

Síðar átti Pétur góða fyrirgjöf fyrir markið sem ég hefði átt að skalla inn en var ekki nægilega ákveðinn og klúðraði. Skömmu síðar var Pétur í baráttu við markmann, boltinn skoppaði frá og ég komst innfyrir og hafði nægan tíma og nægt rými til að skjóta í mark en tókst að negla með vinstri beint í varnarmann, boltinn skaust af honum beint í andlitið á mér og þaðan útaf. Þarna hefði ég átt að skora því einungis þessi eini varnarmaður var á milli mín og marksins, markmaðurinn lá fyrir fyrir aftan mig væntanlega sallarólegur þegar hann sá að þetta var ég sem var í færinu.

Ég lék allan fyrri hálfleik en var skip útaf eftir tíu-fimmtán mínútur í síðari hálfleik. Kom svo aftur inná en Þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum tognaði ég í hægra læri og fór útaf. Ég tognaði ekki illa og verð vonandi búinn að jafna mig á fimmtudaginn í næsta viku þegar við spilum bikarleik. Ég held að ástæðan fyrir því að ég tognaði var að ég fór útaf og svo aftur inn á, ég klikkaði alveg á því að halda mér heitum þennan tíma sem ég var á bekknum.

Ég tel að það hafi verið ákveðin mistök að hefja innáskiptingar eins snemma í leiknum og við gerðum. Við vorum að yfirspila andstæðingana í fyrri hálfleik og ég tel að við eigum alls ekki að skipta skiptinganna vegna. Við höfum bara ekki efni á því. Það var alveg ljóst að jafnvægið í liðinu raskaðist við skiptingarnar í fyrri hálfleik og mark þeirra má að að vissu leyti rekja til þess. Einnig held ég að Henson ætti að skoða það vandlega að skipta aftur yfir í 4-4-2. Við fórum að spila 4-5-1 vegna skorts á framherjum en núna erum við komnir með ágætis framherja, bæði Pétur og Andri eru stórfínir og aðrir geta svo spilað þessa stöðu nokkuð vel. Maggi og Aggi eru sterki á miðjunni og að mínu mati hefur ekki nógu mikið verið að koma út úr fimmta miðjumanninum, frekar mætti leggja áherslu á að annar framherjinn vinni vel aftur en á móti flestum liðum í þessari deild ætti ekki að vera þörf á því.

Það breytir því ekki að ég tapaði leiknum. Ég var reyndar ekki að spila illa og gerði ágætis hluti, lagði upp færi og lét boltann ganga vel en færin sem ég klúðraði voru einfaldlega of góð. Ekkert lið hefur efni á því að klúðra jafn mörgum færum og við gerðum í kvöld og þegar einn leikmaður gerir sig sekan um að klúðra að minnsta kosti fjórum dauðafærum þarf ekkert að leita annarra sökudólga. Ég er augljóslega enginn framherji.

utandeildin
Athugasemdir

Egill - 26/06/03 08:53 #

Það voru nú fleiri en þú sem klúðruðu Matti minn. Þú getur ekki tekið tekið alla sökina á þig.

Ég er sammála þér með innáskiptingarnar. Ef við erum að spila vel og enginn virkar þreyttur eða ekki í takti við leikinn er engin ástæða til að skipta. Alveg sama hver bíður á bekknum eftir því að komast inná. Það gengur ekki að brjóta niður tempóið í leiknum með óþarfa skiptingum. Varamenn eru til staðar til að hægt sé að bregðast við áföllum eins og slysum eða lélegri spilamennsku. Ekki breyta breytinganna vegna.....

Varðandi leikinn var hann prýðilega spilaður af okkar hálfu. Við yfirspiluðum Norðurlandið á löngum köflum og það virtist vera hálfgerð tilviljun ef þeir komust í sókn. Hreinsun sem rataði á þeirra mann eða tvær til þrjár sendingar sem náðu á milli þeirra áður en við komumst í boltann. Það sem vantaði eins og oft áður var að klára færin. Við áttum amk 3-4 stangar/sláarskot. Eins áttum við fjöldan allan af öðrum dauðafærum, sem við klúðruðum.

Við getum amk huggað okkur við það að loksins er liðið farið að spila vel eftir erfiða fæðingu það sem af er sumri og vörnin virkaði mjög traust. Við mætum bara ákveðnari í næsta leik og lítum á gærkvöldið sem slysið sem það er.

Áfram Henson

kv, Egill

Ingi - 26/06/03 10:33 #

Við verðum að rífa þetta upp í næstu leikjum. Liðið í 6 sæti er með 4 stig þannig við ættum að geta komist úr fallsæti ef við vinnum næsta leik. Áfram Henson!!!