Örvitinn

Gaf allar mínar eigur

Í morgun losaði ég mig við allar mínar eigur, gaf þær.

Þetta gerðist reyndar ekki í raunheimum heldur í gerviveröld EVE.

Það var nokkuð gaman, byrjaði á því að selja slatt af dóti fyrir lítinn pening og auglýsti svo í spjallþráðum að fyrstu fjórir sem létu sjá sig á stöðinni sem ég var staddur á myndu fá milljón isk ef þeir hefðu fyrir því að biðja fallega. Það er gott að gefa en ég veit ekki hversu gott er að þiggja, ég held að í rauninni hafi þetta verið betra fyrir mig en þá sem fengu. Það er alltaf gaman að fá þakklæti frá fólki, jafnvel þegar þakklætið kemur í kjölfar rausnarlegrar gjafar og sé innantómt, gleymt á morgun. Í tölvuleikjum skiptir miklu máli að maður þurfi að hafa fyrir hlutunum, ef maður fær þá upp í hendurnar án fyrirhafnar verður leikurinn fljótt tilgangslaus. Vonandi eyðilagði ég ekki leikinn fyrir þessum fjórum (reyndar fimm, sá síðasti fékk 300.000 þrátt fyrir að komast ekki á stöð). Sá fyrsti sem fékk milljón var dáldið frekur og vildi meira, ætli það tengist því eitthvað að hann er frá Texas? Reyndar bað hann fallega, en ég neitaði líka fallega.

Eftir að ég hafði gefið penginginn flaug ég út að Caldari Monumental Ruins í Luminaire og droppaði restinni af dótinu mínu, hoppaði úr Imicus geimskipinu og fór aftur í skelinni minni á næstu geimstöð. Loggaði mig úr leiknum í síðasta sinn.

dagbók
Athugasemdir

Már Örlygsson - 03/07/03 12:38 #

Vúff. Öflugt. Erfitt. Upphafið að einhverju nýju.

Salvör - 03/07/03 15:09 #

Flott. Djúp pæling. Fór að hugsa um hvað Sigurður Guðmundsson listamaður sagði í myndinni um hann sjálfan Möhöguleikar sem var sýnd í RÚV nýlega. Hann sagði að til þess að þroskast þá þyrfti maður að hætta einhverju. Held það sé nokkuð til í því.

það eru líka góðir punktar sem Bruce Mau tók saman í "An Incomplete Manifesto for Growth". Sérstaklega fyrsti punkturinn - að maður ætti að leyfa því sem gerist að breyta sér. Sjá www.brucemaudesign.com/manifesto.html

Gangi þér vel í þeim veröldum sem þú ferðast um núna þegar þú hefur stigið út úr veröld Eve.