Örvitinn

Henson - BR

Henson 6 - 7 BR (2-2 eftir venjulegan leiktíma)

Hetja og skúrkur. Nei, við skulum bara afgreiða það strax, í kvöld var ég hetja. Ég klúðraði að vísu eina vítinu í vítaspyrnukeppninni, skaut í þverslá, en vítaspyrnukeppni snýst um lán og ólán og eins og lesendur ættu að vita er Henson ekki heppnasta lið landsins, þessi leikur átti aldrei að enda í vítaspyrnukeppni.

Leikið var á ásvöllum Hafnafirði og hófst þessi bikarleikur seint þar sem leikurinn á undan, Hómer - Ragnan fór í framlenginu. Klukkan var því langt gengin í tíu þegar leikurinn var flautaður á í blíðskaparveðri.

Ég byrjaði þennan leik í framlínu þrátt fyrir frammistöðu mína í síðasta leik.

Henson byrjaði leikinn af miklum krafti og við yfirspiluðum BR frá fyrstu mínútu. Það var varla að þeir komust yfir miðju. Henson þreifaði fyrir sér og snemma í leiknum fengum við dauðafæri þegar Kjartan gaf innfyrir vörn BR þar sem Alli mætti einn og yfirgefinn á móti markmanni og hafði nógan tíma en klúðraði, skaut framhjá. Annað eins hefur ekki sést síðan, tja, síðan ég klúðraði fyrsta færinu í síðasta leik.

Eftir um 20 mínútna leik komst Henson yfir, Maggi stóri vann boltann á miðjunni, gaf góðan háan bolta á mig þar sem ég var við vítateig BR, tók boltann á kassann (n.b. ég er með kassa, ekki bringu :-P ) lagði boltann fyrir mig með kassanum og setti hann yfir markmann BR sem átti ekki séns. Snyrtileg afgreiðsla og kom ég sjálfum mér á óvart.

10 mínútum síðar komumst við í 2-0 og aftur var ég á ferðinni !! Markvörður Henson tók langt útspark Aggi (minnir mig) fleitti boltanum áfram og ég stakk mér innfyrir vörnina, tók varnarmann BR á sprettinum, lék framhjá markverðinum og lagði boltann í autt markið. Enn og aftur snyrtileg afgreiðsla og enn kom ég sjálfum mér á óvart !!

Við fengum nokkur önnur ágæt færi í hálfleiknum og Maggi litli var nálægt því að skora stórglæsilegt mark með langskoti. Einnig var brotið á mér innan vítateigs eftir að ég var kominn framhjá aftasta varnarmanni og einn í gegn en dómarinn dæmdi ekki neitt. Allir (þ.m.t. leikmenn BR) voru sammmála um að þarna hefði átt að dæma víti.

2-0 í hálfleik.

Síðari hálfleik byrjuðum við af krafti og eftir 2-3 mínútur fékk Oddi boltann fyrir framan teig BR, lagði boltann á mig við vinstra teighornið þar sem ég tók boltann innanfótar í fyrstu snertinu en skaut yfir fjærhornið.

En svo fór að syrta í álinn. BR komst betur inn í leikinn og hófu að pressa á okkur. Ekki náður þeir þó að skapa sér merkileg færi til að byrja menn en hættan jókst með hverri mínútu. Að sjálfsögðu endaði þetta með því að þeir skoruðu tvö mörk. Ég man satt að segja ekki hvernig fyrsta markið var en síðara markið var fallegt, beint úr aukaspyrnu, yfir vegginn og rétt undir slána. Ég átti eitt ágætt færi, fékk boltann fyrir framan teig, lék á haug af varnarmönnum en hitti svo boltann ekki með vinstri, datt á rassinn og meiddi mig! Fleiri færi fengum við, meðal annars komst Oddi einn innfyrir og hafði nægan tíma til að leggja boltann framhjá markverðinun eða til hliðar á mig en ágætur markvörður BR varði. Þarna hefði Oddi pottþétt skorað ef hann væri í leikæfingu.

2-2 eftir venjulegan leiktíma og hófst framlenging þegar klukkuna vantaði fimmtan mínútur í miðnætti. Þar gerðist svosem fátt markvert fyrr en í upphafi síðari hálfleiks framlengingar þegar Maggi stóri var rekinn útaf fyrir kjaftbrúk. Afskaplega pirrandi hve viðkvæmir dómarar í utandeildinni eru, en kjánalegt að láta reka sig útaf fyrir svona rugl.

Eftir að við vorum orðnir manni færri sótti BR stíft og komust nálægt því að skora. Það tókst þó ekki og því að fara í vítaspyrnukeppni.

Ekki þarf að fara í miklar lýsingar á þeirri keppni, af tíu leikmönnum sem spyrntu skoruðu allir nema ég. Ég tók fjórðu spyrnu okkar og skaut boltanum í slána. Það var satt að segja afskaplega slakt en eins og ég sagði áðan, þá átti þessi leikur aldrei að fara í vítakeppni og vítakeppni er rugl :-P Ég hef aldrei verið þekktur fyrir að vera mikil vítaskytta en þar sem ég hafði þegar skorað tvö mörk í leiknum vildi ég ekki skorast undan. Trúði því ekki að ég gæti klikkað!

En hvað er málið með Henson, erum við eins og Akkiles, hællinn ekki alveg í lagi. Mætum sterkir og líklegir til sigurs á völlinn og rennum á hausinn þegar á reynir.

Af mér er það að frétta að ég er frekar slappur í lærinu, fékk smá tak um miðjan fyrri hálfleik en var aldrei mjög slæmur, hélt því leik áfram. Vonandi batnar þetta. Ég er líka drullusvekktur yfir þessu tapi. Þegar ég skora tvö góð mörk í leik vill ég geta fagnað, ekki fara heim drullusvekktur :-|

utandeildin