Örvitinn

La Primavera

Við hjónin skelltum okkur á La Primavera í gærkvöldi.

Þetta er huggulegur staður á annarri hæð í austurstræti beint fyrir ofan Metz. Staðurinn er bjartur og virkar stærri en hann er þar sem veggurinn innst er þakinn speglum. Við fengum ágætt sæti við glugga. Á næsta borði við okkur sátu sænskir túristar með nokkur lítil börn og var dáldið ónæði af þeim en ekkert til að gera mikið veður útaf. Hinum megin við okkur sat ungt par, maðurinn lét krakkana fara nokkuð í taugarnar á sér sýndist mér, gaut augunum oft til þeirra með vandlætingarsvip. Sami maður tók sig þó til og byrjaði að púa vindil meðan við vorum að borða aðalréttinn okkar. Á milli hans og Gyðu var innan við hálfur metri. Á matseðli La Primavera er fólk beðið um að taka tillit til þeirra sem ekki reykja, staðurinn fær þó stóran mínus fyrir það að leifa reykingar á annað borð og þessi náungi fær titilinn drullusokkur vikunnar.

Þjónustan var með ágætum þó misskilningur hafi valdið því að bjórinn (600kr) sem ég pantaði í fordrykk var lengi að berast. Gyða fékk sér kampavínskokteil (1000kr) í fordrykk sem hún gaf góða einkunn. Ágætt brauð var borið á borð ásamt ólívum. Við fengum okkur flösku af hvítvíni (3.900kr) með matnum, þjónninn sá um valið og vínið stóð fyrir sínu.

Í forrétt fengum við okkur grillaðan humar (2.140kr) annars vegar og bakaðan portobello svepp með geitaosti (1.610kr) hins vegar, skiptum við réttunum með okkur. Báðir voru þeir góðir en humarinn þó betri að mínu mati.

Í aðalrétt pantaði Gyða spagettí með smokkfisk, chili og hvítlauk (1.980) en ég fékk mér fyllta kornhænu með linsubaunum (3.860kr). Ég hafði ráðgert að fá mér gnocchi en það var ekki á matseðlinum.

Gyða var ánægð með sinn rétt, mér þótti hann ágætur en ekkert spes, chili var dáldið yfirgnæfandi fyrir minn smekk. Ég varð aftur á móti fyrir miklum vonbrigðum með kornhænuna. Í fyrsta lagi er hún afskaplega lítil, ég hefði svosem mátt vita það. En að mínu mati var rétturinn afskaplega lítið spennandi, kjötið af fuglinum var ágætt en afskaplega rýrt, fylllingin var bragðlítil og linsubaunirnar lítið spennandi. Ég mæli ekki með kornhænunni.

Í efirrétt pantaði Gyða sér súkkulaðiköku (1.000 kr) og kaffi (600 kr), ég fékk mér tiramasu (1.000 kr). Súkkulaðikakan var ekki spennandi fyrir augað, bökuð í muffins formi en þegar skorið var í hana lak súkkulaðið úr og Gyða varð ekki fyrir vonbrigðum. Tiramasu var gott en ég er samt ekki kaffimaður! samkvæmt uppskrift á að strá kakódufti yfir tiramasú rétt áður en það er borið fram en við hjónin erum þó nokkuð viss um að það hafi verið kaffi ofan á mínu tiramasú, ég skóf það af.

Reikningurinn hljóðaði upp á 17.340 krónur, þar af 6.750 krónur fyrir drykki. 12.000 kr gjafabréf var forsendan fyrir þessu bruðli.

veitingahús
Athugasemdir

JBJ - 12/07/03 20:18 #

Vá maður, það er ekki ódýrt Rustique Auberge í grennd við Grenoble hefði farið létt með að nota þessa peninga í fjórréttaða máltíð fyrir 6 manns.