Örvitinn

Ljósastaurar og önnur hindurvitni

Í ríkissjónvarpinu er verið að sýna þátt sem reynir að búa til dulúð í kringum múmíur. Afskaplega klént, sjónvarpsþættir um hindurvitni fara óendanlega mikið í taugarnar á mér vegna þess að menn beita alltaf stórbrotnum aðferðum til að komast hjá því að segja sannleikann, sannleikurinn er aldrei jafn spennandi og vel framreitt þvaður að mati sjónvarpsmanna.

Már slekkur á ljósastaurum með því einu að ganga framhjá þeim, Regin gerði víst það sama einu sinni. Þeir eru báðir rauðhærðir og með gleraugu, ætli það sé ekki skýringin :-P Nanna vísar á þetta svar í athugasemdum hjá Má.

Sem betur fer var ljósastaurasagan ekki rædd ítarlega á laugardaginn. Davíð komst líka sem betur fer ekki á flug í miðlafrásögnum þetta kvöldið :-)

Í dægurmálaútvarpi rásar tvö var rætt við einhvern miðil í dag, sá fullyrti að Scotland Yard ráðfærði sig iðulega við miðla. Sú fullyrðing stenst litla rýni, þó til séu sárafá dæmi um að slíkt hafi gerst er það alls ekki, eins og halda hefði mátt í dag, stefna Scotland Yard og gerist ekki oft. Aftur á móti er algengt að ættingjar fórnarlamba ráðfæri sig við miðla, eða að miðlar bjóði fram þjónustu sína að firra fyrra bragði. Engin dæmi eru um að þeir hafi gert gagn.

Eins og alltaf þegar hindurvitni eru rædd í fjölmiðlum kom fjölmiðlafólkið fram eins og heilalausir hálfvitar og spurðu ekki einnar gagnrýninnar spurningar. Miðillinn fékk að rasa út gagnrýnilaust og þvílíkt kjaftæði sem kom út úr manninum. Eitt sumar fyrir mörgum árum starfaði Davíð Þór Jónsson sem afleysingamaður í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Það væri svosem ekki frásögum færandi nema vegna þess að Davíð átti það til að spyrja rugludalla gagnrýninna spurninga og hvílíkur munur. Það var dásamlegt að heyra útvarpsmann sem var ekki greinilega slefandi fábjáni.

Erlingur talar sjaldan um yfirskilvitleg fyrirbæri. Reyndar finnst mér atburðir þeir sem hann lýsir ekki ná því að teljast yfirskilvitlegir. Hugtakið tilviljun er stundum hunsað að mínu mati.

Einu sinni upplifði ég afskaplega merkilegt yfirskilvitlegt fyrirbæri. Dreymdi atburð sem ég sá svo ljóslifandi á forsíðu DV daginn eftir. Brú hafði farið í sundur í stórborg úti í heimi. Þessa sögðu sagði ég öllum sem nenntu að hlusta næstu árin. Í dag geri ég mér grein fyrir því að þarna var um að ræða tilviljun, misminni og óskhyggju

Þessu tengt
JUST HOW DO THOSE "POLICE PSYCHICS" DO IT?
Þórhallur miðill er loddari (n.b. þetta var ekki Þórhallur í útvarpinu í dag heldur einhver annar loddari.)

önnur hindurvitni
Athugasemdir

JBJ - 14/07/03 21:11 #

Var þetta freudian slip?

"að firra bragði"

Matti - 14/07/03 21:18 #

Neibb :-) þetta var bara villa. Það tekur mig alltaf svona 30 mínútur að koma þessum pistlum í lag.

birgir.com - 15/07/03 10:10 #

Selective thinking mætti í fljótu bragði þýða sem einblíningu.

En annars er gott að þú vekur máls á þessu. Það er allt of lítið gert af því að fjalla um þessi fyrirbæri út frá sjónarhóli efahyggju, enda grassera hindurvitnin hvert sem litið er.

Sigurður Hólm Gunnarsson - 15/07/03 20:43 #

Skemmtilegar pælingar Matti. Ég er vissulega ósammála sjónvarpsmönnunum þegar þeir telja að ,,sannleikurinn [sé] aldrei jafn spennandi og vel framreitt þvaður".

Þeir sem hafa lesið eitthvað um vísindi, heiminn og undur hans vita að sannleikurinn er í flestum tilfellum mun merkilegri, flóknari og meira spennandi en ,,útskýringar" trúarbragða og hjátrúarfullra manna.

Eggert - 15/07/03 23:05 #

Ég fæ sjaldan tækifæri til þess að vitna í Discworld bækurnar, en þó datt mér ein persónan í þeim í hug þegar ég las þetta. Það er galdrakarlinn Rincewind, sem finnst eins og heimurinn sé knúinn af einhverju öðru en göldrum. Þegar hann sá fyrst myndavél hélt hann að kannski væri í henni ljósnæmt efni sem myndin 'brenndist' inn á þegar opnað væri fyrir venjulegu ljósi. Það olli honum töluverðum vonbrigðum að komast að því að myndirnar voru bara teknar með aðstoð lítilla djöfla, sem teiknuðu myndina bara ofsalega hratt.