Örvitinn

Bullmiðlar, fjölmiðlar og morð

Þegar ég hljóp í ræktinni í morgun sá ég hluta af viðtali í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 við miðilinn sem ætlaði sér að leysa morðmál í Danmörku. Nú er víst búið að handtaka rangan mann að mati þessa miðils.

Jújú, lögreglan fann smokk á staðnum og DNA passar við þann sem er í haldi. Vissulega fundust munir heima hjá manninum sem tengjast stúlkunni. En fjandinn hafi það, íslenski miðillinn veit betur. Hann játar alls ekki að hann hafi rangt fyrir sér, það er lögreglan í Danmörku sem hefur rangan mann.

Svo hefur hann hjálpað til við að leysa ótal mál á Íslandi, mannshvörf og fleira. Hann kann reyndar ekki við að telja þau upp, það er ekki viðeigandi. Asnarnir í morgunsjónvarpinu löptu þetta allt upp gagnrýnislaust. Þegar ég hélt að þau væru að fara að bauna á hann gerðist ekki neitt, hann komst upp með að svara ekki og allir voru sáttir.

Það þarf að setja á svið Carlos heimsókn á Íslandi. Carlos dæmið var þannig að James Randi bjó til miðil sem heimsótti Ástralíu, kom fram í öllum helstu fjölmiðlum og hélt fjölmennar samkomur. Að lokum var öllu ljóstrað upp í fréttaþætti og fjölmiðlarnir sem höfðu gleypt við vitleysunni voru niðurlægðir.

önnur hindurvitni