Örvitinn

Henson - Ufsinn

Henson 0 - 3 Ufsinn

Ekki nenni ég að skrifa ítarlega skýrslu um þennan leik enda var hann ákaflega lélegur. Eins og alltaf segja úrslitin lítið um gang leiksins. Ufsinn skoraði öll mörk sín úr föstum leikatriðum og átti varla önnur færi í leiknum.

Henson byrjaði leikinn mun betur og var miklu sterkara liðið í fyrri hálfleik. Skapaði sér samt ekki nógu mörg marktækifæri. Um miðjan hálfleikinn fengu Ufsinn aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Henson, gáfu ágætan bolta fyrir og skoruðu með skallamarki.

Henson hefði átt að jafna leikinn í fyrri hálfleik, Snæbbi komst einn á móti markmanni og reyndi að lyfta yfir hann, það tókst ekki en Snæbbi fékk boltann aftur og reyndi þá að leggja boltann fyrir á Alla en varnarmaður komst fyrir.

Ég var næstum því búinn að skora í fyrri hálfleik, fékk boltann upp hægri kantinn og gaf misheppnaða sendingu fyrir markið aftur fyrir markmanninn, hann teygði sig all langt inn í markið á eftir boltanum og vildu áhorfendur á hliðarlínu meina að boltinn hefði verið kominn inn. Ekki var þó hægt að ætlast til að dómarinn hefði séð það atvik.

Í seinni hálfleik spilaði Henson afskaplega illa, Ufsinn voru ekkert betri en skoruðu samt tvö mörk, bæði úr hornspyrnum. Á sama tíma kom ekkert úr föstum leikatriðum hjá Henson og aukaspyrnur á besta stöð komstu í engum tilvikum framhjá veggnum, það gengur ekki. Henson þarf að fara að setja mörk úr aukaspyrnum rétt fyrir utan teig. Spurning hvort ég fer ekki bara að taka séræfingar í aukaspyrnur og tek þetta að mér hér eftir.

Ég spilaði frammi allan leikinn fyrir utan fimm mínútur í seinni hluta fyrri hálfleiks. Stóð mig ekki vel í dag, er ekki í nógu góðu formi enda hef ég ekkert spilað fótbolta nema í síðustu leikjum með Henson. Átti eitt ágætt færi í fyrri hálfleik en skaut slöku skoti með vinstri og í síðari hálfleik átti ég svo hjólhestaspyrnu framhjá marki í upplögðu færi, hefði mátt gera betur þar. Góðu fréttirnar fyrir mig eru að lærin héldu, ég tognaði ekkert þannig talað, fékk smá tak í fyrri hálfleik en skellti meira hitakremi á mig og fann næstum ekkert fyrir því það sem eftir lifði leiks.

Afskaplega dapur dagur hjá báðum liðum, ekki sanngjörn markatala þó ekki sé beinlínis hægt að kvarta undan úrslitum, Henson þarf að spila betur ef við ætlum að uppskera eitthvað. Í lokin er rétt að minnast á ótrúlegt væl Ufsamanna en þeir vældu í dómara eftir hvert einasta návígi leiksins. Bekkurinn þeirra var sérstaklega pirrandi að þessu leiti. Einnig var framherji þeirra sérlega ódrengilegur í þessum leik og reyndi hvað eftir annað að fiska brot. Óþolandi að spila á móti svoleiðis mönnum. Leikurinn var samt drengilega leikinn, engin óþarfa brot eða leiðindi.

Þetta varð nú frekar ítarlegt eftir allt saman!

utandeildin