Örvitinn

Trúarlegur þroski og trúarstef í kvikmyndum

Ég var að ráfa um annálinn hans Árna áðan og rakst þar á ýmislegt áhugavert enda Árni áhugaverður annálaritari. Ég setti inn nokkrar athugasemdir, vonandi finnst Árna ég ekki of uppáþrengjandi :-)

Árni setur fram lokamarkmið kennslu í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði. Ég þurfti náttúrulega að spyrja nánar út í fyrsta atriðið í upptalningunni.

Hvað er trúarlegur þroski? Er það trúarlegur þroski að vera mjög trúaður? En trúlaus? Hvað felst í því að efla trúarlegan þroska? Ég skil ekki hvað átt er við og vil gjarnan fræðast um þetta.

Árni og félagar halda úti veglegri síðu þar sem fjallað er um trúarstef í kvikmyndum. Árni fjallar um Hulk á sinni síðu og ég þurfti náttúrulega að koma með leiðinda athugasemd, ég var jú að tapa fótboltaleik :-P

Er ekki ákveðin bilun að sjá trúarstef í öllum hornum? Biblían er stórt og fjölbreytt rit, fullt af klámi, ofbeldi og rökleysu. Liggur því ekki ljóst fyrir að alltaf er hægt að finna eitthvað í Biblíunni til að tengja við eitthvað annað, sér í lagi kvikmyndir sem oft má túlka á fjölbreyttan máta. Er ekki hægt að réttlæta hvað sem er með því að vísa í hina helgu bók?

En það er ekki tilgangur minn að vera með leiðindi, annálavefurinn er stórfínn og þar skrifa margir áhugaverðir pennar. Ég er bara svona leiðinlegur að eðlisfari :-P

efahyggja