Örvitinn

Kringlan, verslunarmiðstöð dauðans

Fyrst það er stanslaus rigning í dag skelltum við okkur í Kringluna með það markmið að kíkja á myndasýninguna World Press Photo. Það er langt síðan ég hef komið inn í Kringluna og ég var eiginlega búinn að gleyma því hvað þetta er hræðilegt hús. Ég var búinn að bæla niður minningar frá því ég vann í Hagkaup Kringlunni með skóla í gamla daga.

Ekki hjálpaði það til að í dag voru að hefjast útsölur þannig að töluvert fjölmenni var á staðnum, útsölumæður stóðu við borð og rótuðu í fötum. Ég horfði hugfanginn á þessa sérstöku dýrategund sem augljóslega fékk mikla fróun út úr því að leita að ódýrustu buxunum, eyða til spara.

Kringlan er gölluð að því leyti að hún þolir ekki mannfjölda, vissulega bagalegt þegar um verslunarmiðstöð er að ræða. Um leið og fleiri en 20 kúnnar hafa safnast saman þar inni er hávaðinn eins og í fuglabjargi. Það var biðröð í barnaland þannig að við slepptum því að setja stelpurnar í geymslu. Þær voru náttúrulega orðnar trítilóðar eftir fimm mínútur, við hlupum hring, reyndum að skoða eitthvað af þessum myndum en þær njóta sín afskaplega illa þarna inni í þetta skiptið, hugsanlega útaf þessum helvítis útsöluborðum sem er búið að troða um ganga eins og þeir þoli það!

Við sluppum út og höfum heitið því að stíga ekki fæti þarna inn í langan tíma.

kvabb