Örvitinn

Sumarbústaðarskýrsla

Við erum stödd í bústað í Skorradal ásamt tengdaforeldrum mínum. Höfum það ósköp notalegt í glænýjum bústað sem við höfum til leigu í eina viku.

Gærdagurinn var rólegur, við vorum að koma okkur fyrir í bústaðnum um hálf fjögur, höfðum það svo rólegt fram að kvöldmat. Grilluðum svínakjöt og kartöflubáta.

Eftir mat spiluðum við Liverpool sem er snilldarspil þar til við fórum að sofa um eitt, Kolla og Inga María voru að sjálfsögðu sofnaðar fyrr.

Í morgun fóru Ásmundur og Kolla í Borganes og keyptu nýbakað brauð í matinn. Við rúntuðum svo smá hring í dag, kíktum í búð í Borgarnesi, komum við á Hvanneyri, lítið merkilegt þar.

Við settum vatn í heita pottinn um eftirmiðdaginn, ég fór og skokkaði ágætan hring í bústaðahverfinu á 25 mínútum. Kom til baka sveittur og sæll, fór í sturtu og skellti mér í smá stund í pottinn.

Á eftir grillum við hamborgara og kartöflubáta, ætli við spilum svo ekki Liverpool í kvöld.

Ég næ að tengjast netinu með því að hringja úr gemsanum, tengi tölvuna við símann með innrauða tenginu. Hef ekki náð að fá GPRS til að virka, þannig að ekki get ég verið að rápa neitt á netinu. Rétt hringi inn til að setja inn dagbókarfærslu, skrifa hana inn áður. Maður gerir ekki mikið á 9600bás. Þess má geta að eina leiðin til að ná merki á Og Vodafone síma í þessum bústað er að liggja í horninu á efri kojunni í svefnherberginu okkar. Tengdaforeldrar mínir eru með tenginu frá landsímanum og ná merki um allt hús. Enn ein ástæða til að skipta!

prívat