Örvitinn

Enn einn dagur

Ég vaknaði með stelpunum í morgun, við hjónin skiptum dögunum með okkur. Fórum á fætur rétt rúmlega sjö eins og alla aðra morgna, stelpurnar borðuðu morgunmat og svo skellti ég spólu í tækið. Þær léku sér og ég las, vídeóið í gangi fullkomlega sinnulaust um að enginn var að horfa.

Þetta var letidagur, Ásmundur og Guðrún fóru með stelpurnar eftir hádegi. Ætlunin var að fara með Áróru á hestbak en það gekk ekki eftir, hestaleigan var lokuð eða eitthvað í þá áttina.

Rétt fyrir fimm fórum við svo í sund í Borgarnes, gáfum tengdó frí í bústaðnum. Í Borgarnesi er ágætis sundlaug en það var skítakuldi og því nutum við ferðarinnar ekki nógu vel. Áróra fór ótal ferðir í stóru rennibrautinni og skemmti sér vel, ég og Kolla fórum nokkrar ferðir í litlu brautinni en Gyða og Inga María léku sér saman í innilauginni.

Í kvöldmat eldaði ég tandoori kjúkling sem ég setti í kryddlög í morgun, skelli uppskriftinni á vefinn bráðum. Það heppnaðist stórvel og allir voru ánægðir með matinn nema gikkurinn tengdafaðir minn. Við vissum það reyndar fyrir enda borðaði hann bara kalt lambakjöt, afganginn frá því í gærkvöldi. Bárum kjúklingabringurnar fram með kúskús, grilluðu succini og nan brauði.

Kláraði Samúel eftir Mikael Torfason í dag, léleg bók. Mikael kemst upp með að nota klúryrði í stað hugmyndaauðgi. Hann er ekki að gera neitt skapandi eða nýtt, í staðin klórar hann sér áfram á kjaftinum. Æi, mér finnst hann stórlega ofmetinn. Jói lýsir henni ágætlega í athugasemd.

Veit ekki hvað ég les næst..

prívat