Örvitinn

Henson - FC Moppa

Henson 3 – 1 FC Moppa

Leikurinn fór fram á Ásvöllum Hafnafirði klukkan átta í kvöld, frábært veður, glampandi sól lágt á loft en skein sem betur fer næstum þvert á völlinn, aðstæður eins og þær gerast bestar. Mættir 13 leikmenn sem er fínt miðað við forföll.

Varnarlína Henson var frekar óhefðbundin í kvöld, Ármann og Aggi voru miðverðir, Maggi hægri bakvörður og Snæbbi í vinstri bak. Á miðju voru Maggi stóri og Orri, Einar á hægri kant og Kjartan á vinstri, frammi voru ég og Alli.

Henson var sterkar liðið frá byrjun, boltinn gekk vel á milli manna og vörnin var traust. Ég var sérstaklega ánægður með það hversu vel gekk að spila út úr vörninni. Aggi og Ármann voru mjög traustir allan leikinn.

Eftir um fimmtán mínútna leik komst Henson yfir. Alli gaf frábæra stungusendingu inn fyrir, ég stakk vörnina af og átti gott skot rétt fyrir utan vítategi, smurði boltanum út við hægri stöng. Snilldar sending og snilldar afgreiðsla. Áfram sótti Henson og hefði getað bætt við fleiri mörkum. Moppa var ekki að fá mörg hættuleg færi en fóru þó illa með þá sénsa sem þeir fengu, meðal annars komst Moppumaður einn inn fyrir vörnina en skaut framhjá.

Eftir um þrjátíu mínútna leik fékk Henson eina af fjölmörgum hornspyrnum í fyrri hálfleik. Kjartan gaf góðan bolta fyrir, Orri vann skallaboltann sem féll fyrir mig, ég lagði hann út á Magga stóra sem lagði hann á Lalla sem var nýkominn inn á og hann afgreiddi boltann laglega í netið. Þetta var fyrsti leikur Lalla í sumar og hann var ekki búinn að vera á vellinum nema í 2-3 mínútur þegar hann skoraði. Svona eiga menn að gera þetta. Loksins skorar Henson mark úr föstu leikatriði.

Fyrri hálfleikur var mjög góður hjá Henson og við vorum að sækja mjög vel. Ég var sérstaklega ánægður með það hversu oft við komumst aftur fyrir vörn Moppu og náðum að leggja boltann fyrir. Reyndar kom ekki mark úr slíku færi í kvöld en oft vantaði bara herslumuninn.

Í lok fyrri hálfleiks fékk Moppa svo aukaspyrnu við vítateigslínu. Þarna var ég sannfærður um að þeir myndu skora glæsimark enda er það orðin hefð að andstæðingar okkar skori stórkostleg mörk beint úr aukaspyrnu. Því var allur vari hafður á og stór veggur myndaður. Það þurfti ekki að spyrja að því að spyrnan var stórkostleg og stefndi í samskeytin en Orri stökk upp í veggnum og náði að nikka boltanum frá. Mjög mikilvægt augnablik í leiknum og staðan í hálfleik var 2-0 fyrir Henson.

Í hálfleik vorum allir meðvitaðir um að við höfum oft verið í þessari stöðu og höfum alltaf klúðrað henni í ár. Það þurfti svo ekki að spyrja að því að síðari hálfleikur var lakari hjá okkur, Moppa sótti meira en í fyrri hálfleik og fengu fleiri færi. Þeir fóru illa með þau færi sem þeir fengu og Kristján stóð sig vel í markinu, varði oft vel.

Við fengum nokkur færi líka og hefðum getað bætt við mörkum, áttum margar ágætar sóknir. Ég og Alli lékum oft vel saman frammi og í einu slíku tilviki var ég klaufi að skora ekki. Ég gaf boltann á Alla rétt fyrir utan teiginn, hann lagði hann svo vel á mig inn í teig en ég beið of lengi með að skjóta þannig að varnarmaður komst fyrir skotið.

Þegar um fimmtán mínútur voru eftir sótti Henson, Alli elti boltann inn í teig þar sem varnarmaður Moppu var heldur grófur í návígi og dómarinn dæmdi aukaspyrnu. Brotið átti sér stað inni í teig en var hugsanlega ekki nægilega gróft til að verðskulda vítaspyrnu! Það skipti þó ekki máli, Kjartan tók aukaspyrnuna þar sem boltinn var hægri megin við teigslínuna og viti menn, Kjartan dúndraði í gegnum vegginn sem klofnaði eins og rauða hafið, markvörðurinn náði ekki að halda boltanum. Gott mark og loksins skorum við beint úr aukaspyrnu, löngu kominn tími á það.

Þarna var staðan orðin 3-0 fyrir Henson og fimmtán mínútur eftir. Moppa sótti af meiri ákafa það sem eftir var og skoruðu mark þegar um 10 mínútur voru eftir, skot sem hrökk af Agga og Kristján átti ekki möguleika á að verja það. Óheppilegt mark.

Við hefðum átt að bæta við mörkum, ég fékk meðal annars dauðafæri. Kjartan tók innkast rétt við vinstri hornfána á mig á endalínu, ég lék á 2-3 varnarmenn og var kominn í gott færi í teignum en vandaði skotið ekki nógu vel og það var varið. Maggi stóri átti einnig mjög gott skot frá miðju en markmaður duftþaks var orðinn heldur kaldur í lokin, enda skipti það þá svosem litlu máli hvort þeir töpuðu með 2 eða fleiri mörkum, þeir lögðu allt í sóknina og markmaðurinn var á tímabili þeirra fremsti maður, skoraði meðal annars mark sem var dæmt af vegna rangstöðu, ég veit ekki hvort það var réttur dómur.

Lokatölur leiksins 3-1, langþráður sigur hjá Henson. Sanngjörn úrslit, við vorum betri, sérstaklega í fyrri hálfleik en sá seinni var jafnari.

Ég átti ágætis leik í kvöld, markið sem ég skoraði var helvíti gott en ég hefði mátt setja annað, sérstaklega í færinu í síðari hluta seinni hálfleiks þegar ég lék upp endalínu. Lærvöðvarnir á mér entust út leikinn, engin tognun í kvöld. Mér tókst þó að meiða mig aðeins, fór upp í skallabolta og fékk spark í andlitið, þetta græðir maður á því að vera svona stuttur :-), þar sem ég vann boltann dæmdi dómarinn ekki neitt, stoppaði leikinn ekki (réttilega) en hann hefði alveg mátt spjalda gaurinn. Sem betur fer fékk ég ekki skurð en þetta er frekar ljótt, stelpurnar mínar fá enn eina ástæðu til að hneykslast á þessu tuðrusparki mínu ;-) En þetta er bara svo gaman, sérstaklega þegar sigur landast.

utandeildin