Örvitinn

Öfgatrúleysi og annað þvaður

Varúð, þetta er langt og vafalaust leiðinglegt. Lesist bara af einstaklingum með mikla sjálfspíningarhvöt. Ég byrjaði að skrifa um mjög ákveðið efni (öfgar) en missti þráðinn á miðri leið. Nenni ekki að reyna að laga þetta þannig að ég skelli þessu bara frá mér. Þetta er a.m.k. ekki miklu verra en flest af því sem ég skrifa í þessa dagbók.

I

Ég er iðulega sakaður um að vera öfgafullur trúleysingi og ég verð að játa að það er eitthvað til í því. Þeir sem þetta setja fram eru gjarnir á að líkja trúleysingjum eins og mér við öfgatrúmenn. Það pirrar mig meira en lítið.

Sérstaklega finnst mér þetta kjánalegt þegar gagnrýnin kemur frá sannkristnum þjóðkirkjumönnum. Þeir líta þá væntanlega á sjálfa sig sem hófsama trúmenn meðan trúleysingjar eru öfgamenn. Þetta held ég að sé veruleg mistúlkun. Það er ekki til nein hófsöm trú, annaðhvort trúir fólk á hindurvitni eða ekki. Ég held að Þjóðkirkjugengið sjái öfgana á þennan hátt, þeir eru hógværir "miðjumenn" ásamt sinnulausa líðnum. Trúleysingjar og bókstafstrúmenn eru svo á jaðrinum.
fyrri skýringarmynd - með augum þjóðkirkjumanna

En hvað eru öfgar? Ofsatrúmenn eru þeir sem trúa bókstaflega og af miklum hita geri ég ráð fyrir. Öfgafullir trúleysingjar trúa alls ekki á Gvuð(i) eða yfirnáttúru. Er til hógvær trúleysingi? Ég held ekki. Ef þú trúir ekki á Gvuð en trúir á einhverja yfirnáttúru ertu einfaldlega ekki trúleysingi. Þú getur vel verið Gvuðleysingi - heiðinn, en trúleysi hlýtur að mínu mati að fela í sér afneitun á öllum hindurvitnum. Sumir virðast líta á sinnuleysi gagnvart þessum málum sem hógværð, marga þekki ég sem segjast jú vera trúlausir en...og svo kemur frásögn af einhverjum óskaplega merkilegum upplifunum þessa fólks, frásagnir sem ég hef heyrt í milljón útgáfum.

Ekki eru allir trúleysingjar sammála mér um þessa skilgreiningu og ég ætti eflaust að gera greinarmun á öfga-efahyggjumanni, eins og mér og trúleysingjum. Ef þessi notkun mín á orðinu trúleysingi pirrar ykkur, skiptið því þá út fyrir efahyggjumaður í huganum.

II

Auðvitað hef ég fyrir löngu gert mér grein fyrir því að áhugi minn á trúmálum er ekki beinlínis eðlilegur. Ég ætti að líta framhjá þessu kukli og láta trúmenn í friði en ég get það bara ekki. Þegar full kirkja fór með faðirvorið í giftingunni á laugardag varð ég í smá tíma skelkaður. Þetta var eins og að vera staddur í húsi fullu af zombíum, lang lang flestir kirkjugestir sátu stjarfir með hendur í skauti og fóru með galdraþulu, Faðir vor, þú sem ert á himni.... Shitt, mér hefur aldrei áður þótt þetta óþægileg upplifun.

Kirkjuliðið hikar ekki við að troða sér inn í mitt líf, presturinn farinn að predika í leikskóla dóttur minnar, elsta stelpan mín í trúboði oft í viku - trúboði sem n.b. er farið að virka :-( og hluti skattanna sem ég borga fer í að borga einhverjum kyrtlum fyrir að ljúga að fólki. Afsakið, hvernig varð ég öfgamaðurinn í þessu dæmi?

III

Ég sagðist í upphafi játa að eitthvað væri til í að ég væri öfgafullur trúleysingi. Það sem ég játa er að ég er trúlaus. Gjörsamlega trúlaus á öll hindurvitni og trúi ekki á neina yfirnáttúru. Það er ekki þar með sagt að ég hafi skýringar á öllum hlutum. Það er vinsæll leikur hjá trúuðu fólki að segja reynslusögur og heimta skýringar.

Mig langar að taka taka dæmi um tengsl hins andlega og veraldlega, en það eru draumar. Ég veit ekki um þig, en ég hef oft dreymt um hluti sem enn áttu eftir að gerast. Leyfðu mér að segja þér eina sögu og skýrðu hana síðan fyrir mér á veraldlegan hátt.

Ég var sendur í sveit þegar ég var barn. Þetta var gert í gegnum félagsmálaráðuneytið og því fór ég aldrei til sama sveitabæjarins tvisvar. Eitt skiptið kom ég á sveitabæ, seint að kveldi. Ég fór að sofa án þess að vita nokkuð um fólkið sem bjó þar, mundi varla hvað það hét. Um nóttina dreymdi mig að síminn hringdi og húsmóðirin svaraði. Henni var tjáð í símanum að móðir hennar væri látin og fór hún þá að hágráta. Um morguninn velti ég því fyrir mér hvort hún ætti móður á lífi og hvernig stæði á þessum draumi. Í því hringir síminn og hún svarar. Eftir smá tíma fór hún að gráta en seinna um daginn var mér tjáð að móðir hennar væri látin.

Hvað segir þú um þetta?

Þetta skrifar Þorkell og vill þar með meina að hér sé komin einhver sönnun á yfirnáttúru. Ef maður vísar á hugsanlegar jarðbundnar skýringar fer fólk yfirleitt í fýlu eins og Þorkell í þessu tilviki. Hvernig er hægt að standa í slíku? Tilviljanir eru til. Þorkell hefur endurskrifað þessar frásagnir í sínum annál

Ég vísaði á ákveðnar hugsanlegar veraldlegar skýringar en var skammaður fyrir, átti að setja þær fram með eigin orðum í stað þess að vísa bara á Skeptic's dictionary. Ég skil ekki alveg þann þankagang, ef ég hefði vísað í langar ritgerðir um óskylt efni væri hægt að skamma mig fyrir að vísa bara "eitthvað" en ég vísaði á skilgreiningar á ákveðnum hugtökum, fjandakornið - hugtökin koma fram í slóðunum!

www.skepdic.com/dreams.html
www.skepdic.com/selfdeception.html
www.skepdic.com/wishfulthinking.html
www.skepdic.com/confirmbias.html
www.skepdic.com/selectiv.html

En það er svosem hægt að fara yfir þetta á hundavaði fyrir þá sem ekki nenna að lesa í gegnum þessa vel skrifuðu og auðskiljanlegu pistla. Það eru ýmis atriði í atferli manna sem geta skýrt yfirskilvitlegar upplifanir. Minni manna er brigðult og alþekkt er að fólk getur framleitt minningar, blandað þeim saman og ruglað tímaröð. Fólk gerir sér heldur ekki grein fyrir því að fyrir við gleymum því sem ekki skiptir máli. Af öllum okkar upplifunum hverfa lang flestar í gleymsku, það sem við munum er öðruvísi á einhvern hátt. Þar sem við vitum að tilviljanir verða til, er því ekki langsótt að gera ráð fyrir að flestir upplifi tilviljanir ansi reglulega. Við vitum að flestar okkar upplifanir eru hversdagslegar þannig að tilviljanakenndar upplifanir standa upp úr, það er ljóst að við munum því leggja mikla áherslu á þær upplifanir þegar við lítum til baka. Einnig er ljóst að töluverð hætta er á að minning okkar af þessum upplifunum brenglist með tíð og tíma. Því er ekki langsótt að gera ráð fyrir því að drauma Þorkels megi skýra á þennan hátt. Það er að minnsta kosti ekki jafn langsótt og að gera ráð fyrir að framtíðin birtist Þorkel í draumi, náttúrulögmál víkji til hliðar og forsendur vísinda hrynji.

IV

Nú er mikið í tísku að réttlæta Kristnifræðikennslu með þeim rökum að Kristni skipi svo stórt hlutverk í menningu þjóðarinnar. Árni vísaði á þessa grein eftir Bjarna Randver Sigurvinsson á vefsíðu þjóðkirkjunnar.

Í forystugrein í Morgunblaðinu 12. júlí er tekið undir þessi sjónarmið um leið og mikilvægi kristinna fræða og trúarbragðafræða í skólakerfinu er áréttað. Þar segir að þar sem þekking á kristindóminum sé nauðsynleg til að skilja menningu og siði landsmanna, sé „engin leið að láta eins og kristindómurinn komi þeim ekki við, sem ætlar að búa á Íslandi“. Sömuleiðis geti kristnir menn ekki skilið aðra menningarheima nema kunna skil á þeim trúarbrögðum sem hafi mótað þá.
Ég las þessa forysturgrein í málsgagni trúmanna á Íslandi og ég skil ekki alveg hvað menn eru að reyna að segja. Að hvaða leyti er þekking á kristindómi nauðsynleg til að skilja menningu og siði landsmanna? Er einhver til í að færa rök fyrir þessari fullyrðingu? Ég hef heyrt þetta svo oft og alltaf er þetta sett fram eins og um heilagan sannleik sé að ræða, en svo er ekki. Ísland er ekki kristið land, Íslendingar eru ekki kristnir - langflestir Íslendingar eru þvert á móti villutrúarmenn samkvæmt kenningum kirkjunnar, trúa á allskonar önnur hindurvitni sem á engan hátt samrímast kristni. Ísland er vestrænt nútímalegt samfélag, vissulega hefur kristin Kirkja síðustu árhundruð aðlagað sig vestrænum gildum, en það er einmitt máli. Kirkjan lifir á Íslandi vegna þess að hún hefur aðlagast samfélaginu, ekki öfugt, enda væru Íslendingar fljótir að yfirgefa Kirkjuna ef þeir Kirkjunnar menn segðu það sem þeir hugsa, ekki það sem fólk vill heyra. Séra Karl Sigurbjörnsson biskup er enginn aðdáandi samkynhneigðra þvert á móti. Ef hann mætti ráða væri fyrir löngu búið að banna þessan ósóma og loka þetta fólk inni, en hann gerir sér grein fyrir að sjónarmið hans njóta ekki vinsælda. Kirkjuþing hefur hvað eftir annað komið með frjálslyndar ályktanir í málefnum samkynhneigðra en eitthvað kemur í veg fyrir að þær ályktanir skili sér í starfi Kirkjunnar. Hvað? Allir vita að Kalli og hinir svartstakkarnir eru ekki frjálslyndustu menn innan Þjóðkirkjunnar, þvert á móti. Auðvitað hafði ég rangt fyrir mér með ályktanir Kirkjuþinga, það hafa aldrei neinar ályktanir um málefni samkynhneigðra komist í gegnum Kirkjuþing, jafnvel þó stór hluti fjárlslyndra presta hér á landi séu tilbúnir til að gifta samkynhneigða í Kirkjum. Þögn kirkjunnar í málefnum samkynhneigðra er æpandi. Andmælir þú þessu Árni

Eins og ég nefndi hér að ofan telja þjóðkirkjumenn (og fleiri) að trúleysingjar séu öfgamenn, andstæða öfgatrúmanna (bókstafstrúmanna) bara verri ef eitthvað er. Ég tel að raunveruleikinn sé nær því sem sjá má á þessari mynd, þjóðkirkjumenn eru langt frá hinum "venjulega" Íslending í hugsun. Lang flestir eru sinnulausir um trú og þjóðkirkjumenn eru mun nær bókstafstrúmönnum en þeir vilja trúa. Trúleysingjar eru vissulega á hinum kantinum, lausir við Íslenska álfatrú, það er okkar böl.
seinni skýringarmynd - eins og ég held að þetta sé

13.08.03 08:30
Birgir er með meiri umfjöllun í dagbók sinni.

efahyggja
Athugasemdir

birgir.com - 11/08/03 22:57 #

Ég píndist nú ekkert við að lesa þetta, þvert á móti. En ég er nú líka ofstopafullur vantrúboði.

Hún er þrautseig þessi skilgreining margra trúmanna, að hófsöm, efablandin trú sé hin eðlilega dyggð en trúleysi og ofsatrú öfgarnar. Ég sé þetta miklu fremur þannig að trúleysið/efahyggjan sé hlutlaust normalástand (og þá hin sanna dyggð) en bókstafstrú og nýaldartrú öfgarnar í sitthvora áttina. Þetta byggi ég á hugtökunum opinni og lokaðri heimsmynd sem ég tefli mikið fram í umræðunni.

Bókstafstrúarmaðurinn á sér kyrfilega læsta heimsmynd beint upp úr trúarritinu sínu og lítur ekki við neinu öðru, en nýaldarmaðurinn hefur svo opna heimsmynd að þar ríkir engin efahyggja og allt er afgreitt sem sennilegt, ef ekki bara satt.

Árni Svanur - 11/08/03 23:08 #

Þú mátt gjarnan vísa í heimildir varðandi þetta viðhorf biskupsins og ályktanir Kirkjuþings um samkynhneigð.

Matti - 11/08/03 23:19 #

Á ég að vísa í heimildir þegar ég rægi Biskup? Segðu mér, gerir þú sömu kröfu til hans?

Neitar þú því að fram hafi komið ályktanir á Kirkjuþingum í málefnum samkynhneigðra sem hafa verið mun frjálslyndari en gjörðir Kirkjunnar? Eða hafa þessar ályktanir aldrei komið fram, hefur þetta alltaf verið kæft í umræðu á þingunum?

23:50 Ég hef breytt textanum örlítið, tónað þetta niður.

Ásgeir - 12/08/03 00:29 #

Er ekki alveg að samþykkja þennan skala - ég aðhyllist engin skipulögð trúarbrögð (hvorki bókstaflega eða "hóflega") en afneita hins vegar ekki sjálfkrafa öllu yfirnáttúrulegu og tel því orðið trúleysingi ekki eiga við mig. En ég sé ekki hvernig það gerir mig sinnulausan - því það á við þá sem hafa ekki velt þessum málum fyrir sér og eru í þjóðkirkjunni því þeir hafa ekki nennu að gera upp við sig hvort þeir eigi heima þar eða ekki. Vantar ekki eitthvað meira þarna á miðjuna?

Matti - 12/08/03 00:35 #

Vissulega mætti bæta einhverju á þessu mynd, en þetta á bara að vera gróf mynd af því hvernig ég ímynda mér að menn sjái hlutina. Sinnuleysi mætti því skipta út fyrir "aðra". Á þessum myndum værir þú væntanlega hægra megin við sinnulausa.

En svo er skiptingin sem Birgir minnist á í athugasemd hér fyrir ofan líka áhugaverð. Eflaust hentar hans flokkun betur í þessari umfjöllun.

Halldór - 12/08/03 11:32 #

Blessaður, Kirkjuþing hefur tekist á við málefni Samkynhneigðra, t.d. var 7. mál á kirkjuþingi 1996 greinargerð starfshóps um þau mál. Þar er lagt til að helgisiðanefnd útbúi ritual um bæn og blessun fyrir samkynhneigt fólk sem staðfest hefur samvist sína. Jafnframt er lagt til að kannað verði hvort samkynhneigð pör geti fengið vígslu í kirkju, en setur fyrirvari um að það feli hugsanlega í sér skuldbindandi aðgerð fyrir forstöðumenn annarra trúfélaga sem er hugsanlega óæskilegt. Þá var auk þess lögð til aukin fræðsla um málefni samkynhneigðra í kirkjunni. Kirkjuþing fagnaði þessari skýrslu og þakkaði hana mjög og vísaði henni áfram til Kirkjuráðs og hugðist taka málið upp aftur að ári. Niðurstaða næsta árs var að auka fræðslu um samkynhneigð innan kirkjunnar, en aðrar hugmyndir voru horfnar að mestu úr ályktuninni. Fræðslan hvarf svo sem einnig. Málið hefur ekki komist upp á borð síðar að ég best veit, enda allt púður kirkjuþinga síðan farið í innra endurskipulag. Það er ljóst að málefni samkynhneigðra voru kæfð í kirkjunni, því verður ekki neitað. Hins vegar er rangt hjá þér Matti að hr. Karl og félagar hans hafi átt þar beinan þátt. Það eru nefnilega einhverjir fleiri sem hafa völd í þessari kirkju.

En burtséð frá því, þá er túlkun þín áhugaverð á öfgunum, ég myndi fremur sjá þetta sem hring, þar sem trúleysinginn og trúmaðurinn sannfærði mætast að lokum. Þar sem sinnuleysið er í 180 gráðu fjarlægð frá trúleysingjanum/trúmanninum. Þá held ég að þú getir ekki greint á milli trúarsannfæringar bókstafstrúarmannsins og einstaklinga í þjóðkirkjunni, trúin er einfaldlega ólík en afleiðingarnar ekki svo mjög.

E.s. Djákninn les semsagt pistla þína mjög reglubundið og notast við molana hans Bjarna Rúnars til að sjá hvenær þú skrifar eitthvað nýtt. Kirkjan FYLGIST með þér.

Matti - 12/08/03 12:39 #

Þakka þér fyrir Halldór, ég verð að játa að glannalegar fullyrðingar mínar um þjóðkirkjuna og samkynhneigð voru einungis byggðar á óljósum minningum um þessi atriði sem þú rifjar upp.